Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Það er ekki ýkja margt sem hefur komið fram í þessari umræðu sem ég tel ástæðu til að svara. Það er endurtekið hér í síbylju að hér sé um brot á lögum að ræða, brot á jafnræðisreglunni o.s.frv. Ég hef í tvígang svarað þessu, hæstv. forseti, og tel ekki ástæðu til að endurtaka það hér.
    Það sem er auðvitað athyglisvert við þennan frumvarpsflutning og mjög sjaldgæft er að einn stjórnarliði gangi til samstarfs við stjórnarandstöðuna til að hnekkja ákvörðun ríkisstjórnarinnar, ákvörðun sem hans ráðherrar stóðu einnig að. Það er nokkuð sérstakt í þessu máli. Það sem er líka sérstakt í þessu máli, sem er náttúrlega nauðsynlegt að komi skýrt fram hér, er að frv. felur í sér að það á að hækka, ef það verður að lögum, vexti á þegar teknum lánum fólks. Stundum er talað um frá 1984 og stundum er talað um frá 1986. Og það er auðvitað gagnlegt að fá það fram í þessari umræðu að ef þetta verður að lögum verða þessir vextir hækkaðir á þegar tekin lán kannski alveg til 1984. Og það er ekkert verið að hnekkja ákvörðun ríkisstjórnarinnar, hv. þm., vegna þess að ákvörðun um 1% vexti getur auðvitað staðið fyrir það þó að þetta frv. verði samþykkt. Það mundi þá þýða það eingöngu að það ætti að hækka vexti um 1% á þegar tekin lán, kannski til 1984 eða 1986 eins og hv. þm. nefndi. Það er auðvitað mjög nauðsynlegt að þetta komi fram.
    Mér finnst hins vegar ástæða til þess að draga það fram að það kom fram í orðum síðasta ræðumanns að hann mótmælir því ekki sem ég hélt fram í minni ræðu hér áðan að hann hefði farið með rangt mál í sl. viku, og að sú fjölgun sem hefur orðið á starfsmönnum Húsnæðisstofnunar ríkisins var mestöll komin til í tíð hv. þm. sem ráðherra. Það sem verið er að biðja um einungis núna er að þetta fólk verði fastráðið og fái réttindi samkvæmt því. Ég er alls ekki að lasta það að fjölgað hafi verið í Húsnæðisstofnuninni í tíð hv. þm. sem ráðherra, síður en svo, vegna þess að verkefnin hafa verulega aukist, bæði með stofnun
ráðgjafardeildarinnar, með upptöku húsbréfakerfisins 1986, með lögum um kaupleiguíbúðir o.s.frv. Það sem ég var að lasta hér í mínum málflutningi áðan er að mér fannst þess gæta í málflutningi hv. þm. að hann hefði ekki nægilega mikinn skilning á því mikla álagi sem er á fólki í Húsnæðisstofnun ríkisins. Og hv. þm. talaði um að það sé verið að skoða þessi mál, að fastráða þetta fólk hjá stofnuninni og að athuga þær beiðnir sem nú liggja fyrir um að fjölga með tilliti til aukinna verkefna. Í því sambandi minni ég á að hv. þm. sagði í sinni ræðu hér um daginn að hann vonaði að ekki yrði orðið við beiðni Húsnæðisstofnunar og taldi sig þar tala í umboði Alþingis. Þetta tel ég mjög nauðsynlegt að komi fram, að þær ráðningar sem hv. þm. vill ekki að verði samþykktar eru flestar frá tíð hv. þm. sem félagsmálaráðherra. Það er mikilvægt að slíkt komi fram í þessari umræðu út af þeirri makalausu ræðu sem hv. þm. flutti hér í síðustu viku.