Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Flm. (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að bæta neinu efnislega frekar við þessa umræðu. Ég þakka þeim sem lagt hafa hér orð í belg, sérstaklega þeim sem hér hafa tekið til máls til að lýsa stuðningi við frv. Það eru reyndar fleiri úr liði stjórnarliða en sá sem er einn af flm. sem hafa lýst sig fylgjandi þessu frv. Hv. 6. þm. Norðurl. e. hefur einnig lýst stuðningi sínum og sama er að segja um ýmsa fleiri úr stjórnarliðinu. Þó að þeir hafi ekki talað hér í þessari umræðu liggur það fyrir skjalfest á öðrum vettvangi.
    Það er þess vegna ljóst að það er víðtækur stuðningur við málið hér í hv. deild og ég vænti þess að það fái málefnalega skoðun í hv. félmn. Ef það reynist rétt vera sem formaður félmn. taldi, hv. 9. þm. Reykn., að á því væru einhverjir tæknilegir meinbugir, þá er ég sannfærður um að við getum sameinast um að vinna bug á slíkum atriðum til þess að frv. geti að öðru leyti náð tilgangi sínum.
    Að svo mæltu endurtek ég ósk mína, virðulegi forseti, um að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.