Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Forsætisráðherra (Steing rímur Hermannsson):
    Herra forseti. Eins og heiti frv. ber með sér er hér um að ræða að lögfesta þau atriði sem lögfesta verður sem framhald af þeim loforðum sem ríkisstjórnin gaf aðilum að nýgerðum kjarasamningum. Ég hef áður gert grein fyrir þeim bréfum sem ég ritaði fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í umræðum hér á þingi og þarf ekki að fara ítarlega út í það, en mun þó fara yfir einstakar greinar og nefna það sem mikilvægast er í því sambandi. Það er rétt að geta þess strax að hér eru nokkur atriði sem reyndar eru afleiðingar kjarasamninga á sl. ári og sömuleiðis er hér einn kafli, VII. kafli, sem fjallar um breytingu á lögum um ríkisábyrgð á launum sem er töluvert ítarlegri en beint má rekja til þessara kjarasamninga. Engu að síður þótti rétt að hafa þann kafla allan hér með því að hann er unninn að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins og reyndar á grundvelli samkomulags sem við þá var gert um breytingar á þessum lögum.
    Í þessum síðustu kjarasamningum lögðu aðilar vinnumarkaðarins jafnframt fram ákveðnar tillögur um breytingar á þeim frumvarpsdrögum sem lágu fyrir um greiðsluábyrgð á launum og þær breytingar voru gerðar að liðum í þeim loforðum sem ríkisstjórnin veitti.
    Í 1.--3. gr. frv. eru gerðar breytingar sem eiga að tryggja að ellilífeyrisþegar fái hlutdeild í orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningi BSRB og fjmrh. dags. 2. febr. 1990 og hygg ég að það skýri sig fullkomlega sjálft.
    Í næsta kafla er fjallað um ráðningu starfsmanna. Þessar breytingar ber að rekja til kjarasamninganna í fyrra við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, en eins og ég hygg að hv. þm. þekki er mikið af lausráðnu starfsfólki, bæði hjá Stjórnarráði og alveg sérstaklega hjá ýmsum ríkisstofnunum, og hefur ríkt töluverð óvissa um réttindi þessa starfsfólks. Yfir þetta mál hefur nú verið farið vandlega af lögfræðingum og rætt við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og er þessari 4. gr. ætlað að koma þessu á hreint, bæði að ákveða hvaða réttindi slíkt starfsfólk hefur sem ráðið hefur verið í ákveðinn umsaminn tíma og sömuleiðis að greina á milli þess og þeirra sem ráðnir eru til sumarafleysinga. Þetta er tvímælalaust hið mikilvægasta mál og þeir sem um þetta mál hafa fjallað vænta þess, eins og ég sagði áðan, að þar með komist slík mál á hreint.
    Í 5. gr. frv. er fjallað um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga með síðari breytingum. Þar er um að ræða greiðslu bænda á fasteignagjöldum en sú ákvörðun var tekin um síðustu áramót að færa grundvöll fasteignagjalda til samræmis við það sem er hér á Reykjavíkursvæðinu með ákveðnum margfeldisstuðli. Þetta hefði hækkað mjög fasteignagjöld af t.d. útihúsum bænda og var gert að skilyrði í þeirra samkomulagi við aðra aðila vinnumarkaðarins að þessi fasteignagjöld af útihúsum yrðu ekki lögð á á hinum nýja margföldunargrundvelli

heldur á þeim gamla. Um þetta var rætt við samtök sveitarfélaga og var á það fallist og er síðan staðfest í þessari grein.
    Í 6. gr. er tekið inn ákvæði þar sem sveitarstjórnum er heimilað að lækka eða fella niður fasteignaskatt af útihúsum í sveitum ef þau eru einungis nýtt að hluta eða standa ónotuð. Þetta er orðið töluvert aðkallandi ákvæði vegna þess að við samdrátt þann sem orðið hefur í landbúnaði er mikið af slíkum útihúsum og það hefur staðið nokkuð í vegi fyrir eðlilegum samdrætti að bændur hafa talið sér erfitt að nýta ekki slík hús ef þeir eru krafnir um fasteignagjöld af þeim.
    Í IV. kafla frv. er ákvæði til bráðabirgða sem breytir lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvöru. Í lögum er ákveðið að verðlagsgrundvöllur skuli ákveðinn til tveggja ára og síðan framreiknaður af Hagstofu Íslands. Nú er hins vegar gert samkomulag um það á milli bænda og aðila vinnumarkaðarins og með staðfestingu ríkisstjórnarinnar, með vilja hennar til að breyta lögum um þennan framreikning, að landbúnaðarverð verði óbreytt til 1. des. þetta ár.
    Í V. kafla er ákvæði í 8. gr. frv. sem fjallar um hækkun á frítekjumarki almannatrygginga. Gefið var fyrirheit um það við gerð kjarasamninga að frítekjumark lífeyrisþega verði hækkað í 19.200 kr. 1. júlí og 21 þús. kr. 1. jan. 1991. Þetta þýðir í raun að frítekjumark verður mismunandi eftir því hvernig teknanna er aflað. Þetta er út af fyrir sig mjög umhugsunarvert. Staðreyndin er hins vegar sú að það er mismunandi nú að því leyti að tekjur af sparifé koma ekki til frádráttar greiðslum lífeyrissjóða og var það meginrökstuðningur aðila vinnumarkaðarins fyrir því að tekjur sem aflað er með greiðslu í lífeyrissjóði, sem líkja má við sparifé, komi heldur ekki til frádráttar. Hér er sem sagt í raun veitt heimild til að mismuna í frítekjumarkinu og er með tilvísun til þessa samkomulags sem ég hef nú nefnt. Það skal jafnframt tekið fram að ríkisstjórnin lagði á það áherslu, og það kemur fram í bréfi hennar, að enn er í undirbúningi að samræma bæði skattlagningu og aðra meðferð tekna, m.a. sparifjár, og það tel ég vera orðið afar aðkallandi.
    Í VI. kafla er fjallað um þá ósk aðila vinnumarkaðarins að þeir aðilar sem
atvinnulausir eru í fjóra mánuði eða lengur á 12 mánaða tímabili fái greiddar láglaunabætur í samræmi við þær láglaunabætur sem ákveðnar voru í kjarasamningum. Hér er um að ræða heimild fyrir Atvinnutryggingarsjóð til að inna slíkar greiðslur af hendi. Þær geta orðið um 8--9 þús. kr. á hvern atvinnulausan í fjóra mánuði eða lengur. Áætla má, þó að þær tölur liggi nú ekki mjög ljóst fyrir, að þetta geti orðið um 6--7 millj. á ári.
    Í VII. kafla er, eins og ég sagði áðan, um að ræða breytingar á ríkisábyrgðum á launum. Sá kafli er allviðamikill eða viðameiri en aðrir kaflar í frv. og stafar af því að sérstök nefnd hefur í nokkuð langan tíma unnið að endurskoðun á umræddum lögum. Það

er rétt að það komi fram að í þessari nefnd voru Jón Rúnar Pálsson lögfræðingur, tilnefndur af Vinnuveitendasambandi Íslands, Lára V. Júlíusdóttir héraðsdómslögmaður, tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands, Ragnar H. Hall borgarfógeti, tilnefndur af dóms- og kirkjumrn., Skúli Thoroddsen lögfræðingur, tilnefndur af fjmrn., og Þórhildur Líndal, deildarstjóri í félmrn., sem var formaður nefndarinnar. Menn voru sammála um að þessi lög þurfi að endurskoða. Það hafa orðið miklu meiri greiðslur á slíkum ábyrgðum en gert var ráð fyrir eins og kemur fram á bls. 6 í athugasemdum með frv. Greiðslur hafa orðið margfalt meiri en fjárlög t.d. hafa gert ráð fyrir ár hvert. Auk þess vöknuðu í umræðu um málið fjölmargar spurningar og var þessari nefnd falið að athuga hvort breyta þyrfti lögum í því sambandi. T.d. hefur verið mikil áhersla á það lögð að einfalda framkvæmd þessara laga og af hálfu ríkisvaldsins var talið eðlilegt að stytta það tímabil sem ríkisábyrgðin tekur til og samræma slík tímabil. Þá var talið rétt að setja í lög ákvæði sem takmarka greiðslur til einstaklinga, hvort sem miðað er við viku- eða mánaðarkaup og þá sérstaklega hvort slíkar greiðslur ættu að ganga upp úr, getum við sagt, án tillits til þeirra launa sem menn höfðu í fyrirtækinu áður, þ.e. þeir hæstlaunuðu ættu rétt á greiðslu á fullum launum við gjaldþrot.
    Þá var talið rétt að fjalla um það hvernig háttað væri greiðslu til stjórnarmeðlima og þeirra sem bera ábyrgð á rekstri fyrirtækis o.s.frv. Í umræðum um þessi mál eða viðræðum við aðila vinnumarkaðarins kom fram að þeir gátu ekki fellt sig við að ríkisábyrgð yrði ekki veitt á greiðslum til lífeyrissjóða. Hugmynd nefndarinnar hafði verið, eða a.m.k. fulltrúa stjórnvalda í nefndinni, að fella þá ábyrgð út. Sú ábyrgð var ekki í lögum og kom inn í meðferð málsins á Alþingi minnir mig 1985. Ríkisstjórnin féllst á að þetta yrði ekki tekið úr lögum þannig að enn þá er ábyrgð á greiðslum til lífeyrissjóða, þó sett það ákvæði inn að þeir skuli hafa gert innheimtutilraun, enda gjaldþrotið þeim ljóst. Hins vegar var samkomulag um að takmarka mánaðarlega greiðslu við þreföld lágmarkslaun.
    Ég sé ekki ástæðu til að fara nánar út í þennan kafla. Þetta sem ég hef nú talið eru meginlýsingar á þeim breytingum sem hér er gert ráð fyrir, ég en endurtek að þarna var að eindregnum tilmælum aðila vinnumarkaðarins horfið frá þessu tvennu sem ég nefndi, að fella niður greiðslur til lífeyrissjóða og takmarka enn meira hámarksgreiðslur til einstakra aðila og sömuleiðis var fallið frá því að takmarka greiðslur til einstaklinga við 10 mánuði.
    Ég vil jafnframt geta þess að þetta frv. hefur verið sent aðilum vinnumarkaðarins til meðferðar og þeir hafa gert við það lítils háttar athugasemdir sem allar voru teknar til greina þannig að ég lít svo á að engra frekari athugasemda sé í raun að vænta frá þessum aðilum.
    Eins og ég sagði, herra forseti, þá hafði ég áður í allítarlegri ræðu lýst þeim fyrirheitum sem ríkisstjórnin gaf við gerð kjarasamninga og sé ekki ástæðu til að

rekja það nánar. Allir flokkar á þingi hafa lýst að meira eða minna leyti stuðningi við kjarasamningana þó að einstaka athugasemdir hafi komið fram og það er von mín að Alþingi sjái sér fært að afgreiða þetta mál eins fljótt og frekast er unnt þannig að engin óvissa þurfi að ríkja um framkvæmd á þessum loforðum. Hér er sérstaklega eitt atriði sem er bundið við næstu mánaðamót. Það er ákvæði um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum með síðari breytingum, þ.e. það ákvæði til bráðabirgða sem heimilar að búvöruverð skuli ekki framreiknað þannig að mikilvægt er að það fáist afgreitt sem fyrst. Ég kynnti fyrir öllum þingflokkum innihald þessa frv. á sínum tíma og vona að menn hafi haft tíma til að fjalla eitthvað um það.
    Ég vil svo leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og félmn. Ég vil geta þess strax að ég hef nokkuð hugleitt hvort það ætti að vísa því til félmn. eða fjh.- og viðskn. Staðreyndin er vitanlega sú að einstakar greinar eiga heima í hinum ýmsu nefndum þingsins. Stærsti kaflinn, um greiðslu í gjaldþrotum, á tvímælalaust heima í félmn. og fleiri kaflar sem hér er um fjallað. Auk þess er hér um framkvæmd á loforðum sem tengd eru kjarasamningum, sem sagt um félagsmál að ræða. Niðurstaða mín varð því sú að réttast væri að frv. væri vísað til hv. félmn.