Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki fjölyrða um það mál sem hér er til umræðu, enda viljum við freista þess að koma því til nefndar svo að það fái eðlilega og góða afgreiðslu hér á þingi.
    Það var athygli vert að hlusta á síðustu ræðurnar um aflamiðlunina því að í ræðu hæstv. sjútvrh. kom fram að hann hefði lýst þeirri skoðun sinni að eðlilegast væri að sjútvrn. færi með þessi mál og hann staðfesti enn fremur að í samræmi við það sem gert var ráð fyrir við fiskverðsákvörðun í fyrra yrði gripið til þessarar aflamiðlunar þá þegar og kvaðst telja eðlilegast að það gerðist þegar um síðustu áramót. Nú kemur í ljós að hæstv. ríkisstjórn hefur enn ekki komið sér saman um það hvernig leysa skuli þetta mál nema hæstv. utanrrh. sem hér er staddur vilji vera svo góður að koma í ræðustól og gera grein fyrir niðurstöðu málsins. Það alvarlega við þetta mál er að það tefur fiskverðsákvörðun sem líta verður á sem hluta af kjarasamningum, enda ræður fiskverðsákvörðun úrslitum um kjör sjómanna og leggur grundvöllinn í verðlags- og gengismálum þjóðarinnar. Hér er því um ákaflega brýnt mál að ræða.
    Það er harla athygli vert að hlusta á hæstv. forsrh. segja frá því hér að eftir að bréfið frá yfirnefndinni barst hæstv. ríkisstjórn hafi borist bréf frá Verkamannasambandinu þar sem mótmælt er tillögu yfirnefndarinnar um skipan hagsmunaaðila í nefndina sem fjalla skal um aflamiðlunina. Ef taka skal mark á bréfi Verkamannasambandsins --- og geri ég síst lítið úr áhrifum þess í hinni nýju skipan efnahagsmála á Íslandi sem varð við síðustu kjarasamninga þegar aðilar vinnumarkaðarins tóku að sér hlutverk hæstv. ríkisstjórnar ---
þá hlýtur maður að spyrja í framhaldi af því hvort ekki sé á sama hátt tekið tillit til óska Alþýðusambands Íslands sem sent hefur hæstv. ríkisstjórn bréf og farið fram á að ekki verði skorið af Atvinnuleysistryggingasjóði og Byggingarsjóði ríkisins. Má þá skilja orð hæstv. forsrh., og reyndar hæstv. sjútvrh. sem virtist taka undir þau sjónarmið sem koma fram í bréfi Verkamannasambandsins, svo að tekið skuli tillit til þessara sjónarmiða?
    Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því að leggja þetta í hendur þessara aðila, ekki síst ef þeir ná samkomulagi um það við aðra aðila á vinnumarkaðinum og treysti þeim reyndar betur en hæstv. ríkisstjórn, en þetta torveldar manni að átta sig á því hver stjórnar í þessu landi og hvort um fullt framsal er að ræða til þessara aðila eða hvort ríkisstjórnin hefur einhverja skoðun og ætlar að leysa þessi mál, og þá hvort hún leysir þau með sama hætti, burt séð frá því hvaða mál er um að ræða. Væntanlega tekur hæstv. utanrrh. til máls og skýrir sína hlið á þessu mjög svo mikilvæga máli.
    Að öðru leyti, virðulegur forseti, ætla ég ekki að hafa mörg orð um það sem hér hefur farið fram. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að hafa svarað ýmsum

fyrirspurnum sem til hans var beint. Ég hefði að sjálfsögðu kosið að svörin væru skýrari. Það mátti ráða af máli hæstv. ráðherra og af máli hv. þm. Stefáns Valgeirssonar og á það hefur verið bent fyrr í þessum umræðum, þar á meðal af 2. þm. Reykv., að hæstv. ríkisstjórn virðist ekki telja Stefán Valgeirsson með þegar rætt er við stjórnarliðið því að í umræðunni kom fram að hæstv. fjmrh. hefði ekki haft fyrir því að senda honum þær tillögur sem liggja fyrir um niðurskurð á ríkisútgjöldum. Ég skil það vel og það er í þeim anda sem nú er unnið að hæstv. forsrh. beri sig saman við fulltrúa vinnumarkaðarins áður en hann leggur fram tillögur um það hvernig staðið verður við það fyrirheit að lækka verðlag um 0,3% í þessum mánuði og ætla ekki að ganga frekar eftir þeim svörum. En formsins vegna kemur auðvitað að því að slíkt mál kemur inn á hv. Alþingi jafnvel þótt aðilar vinnumarkaðarins hafi tekið að sér að stjórna þessum málum eins og raun ber vitni.
    Hins vegar er ég afar óánægður með svör hæstv. forsrh. að því er varðar jöfnunargjaldið og tel að hæstv. fjmrh. hafi selt hæstv. forsrh. kött í sekk sem lofar ekki góðu ef hæstv. forsrh. trúir öllu sem hæstv. fjmrh. segir um jöfnunargjaldið. Það er staðreynd að fyrir tæpu ári síðan skrifaði hæstv. forsrh. bréf og sagðist mundu fella niður jöfnunargjaldið um leið og virðisaukaskatturinn yrði tekinn upp. Hinn 30. apríl 1989 var þetta bréf skrifað. Þar segir fyrst að jöfnunargjaldið verði hækkað úr 3% upp í 5%, en síðan muni það verða fellt niður um leið og virðisaukaskattur verði tekinn upp.
    Hæstv. utanrrh. sem jafnframt er utanríkisviðskiptaráðherra veit það manna best að það er brot á samkomulagi við aðrar þjóðir að heimta þennan skatt inn og allra verst er það brot á samþykktum í samskiptum við fríverslunarþjóðir ef það er gert með þeim hætti að gjaldið renni í ríkissjóð. Við verðum að átta okkur á því að samkvæmt lögum um jöfnunargjaldið á það að renna til iðnþróunar. Það hefur verið gert með þeim hætti að gjaldið hefur að verulegu leyti verið greitt iðnfyrirtækjum vegna uppsafnaðs söluskatts. Nú standa leikar þannig að þetta gjald fer ekki til slíkra hluta. Jafnvel framleiðsla á sl. ári, þar sem framleiðendur þurftu að greiða söluskatt á söluskatt, skatt á skatt ofan, slík framleiðsla fær ekki endurgreiddan uppsafnaðan söluskatt af innheimtu jöfnunargjaldsins. Það hefur verið upplýst af hálfu hæstv. fjmrh.
    Hæstv. forsrh. kom með sömu röksemdir og hæstv. fjmrh. Hann sagði að það yrði þolað í viðskiptum við aðrar þjóðir að halda úti þessu gjaldi fram eftir árinu á meðan við værum að jafna okkur á virðisaukaskattinum. Við verðum að átta okkur á því hvað það þýðir að jöfnunargjaldið er lagt á. Það þýðir að vöruverð er hærra hér á landi en annars staðar. Ef þessir fjármunir hefðu verið notaðir til þess að koma að fullu til móts við framleiðslufyrirtækin með því að peningarnir rynnu beint til þeirra, þá hefði málið hugsanlega horft öðruvísi við. Það er nefnilega mikill misskilningur, þó að hæstv. fjmrh. og nú hæstv.

forsrh. haldi því fram, að okkur geti liðist að halda úti þessu gjaldi af því að ýmsar Evrópuþjóðir láti fé af hendi rakna til ýmissa útkjálkabyggðarlaga. Ef við skoðum þetta dæmi dálítið betur kemur það í ljós að með því að greiða styrki t.d. til Skotlands sem gert er í stórum stíl, bæði af breskum yfirvöldum og eins Evrópubandalaginu, er verið að styðja atvinnureksturinn til þess að hann geti framleitt fyrir lægra verð og þar með er vöruverð í Glasgow lægra en það ella mundi verða. Íslensk stjórnvöld haga sér hins vegar þannig að þau leggja skatta á innflutninginn, láta skattinn renna í ríkissjóð en ekki til fyrirtækjanna og hækka með því verðlagið þannig að íslensk verslun verður ekki samkeppnisfær við verslunina í Glasgow. Þetta hefur því þveröfug áhrif við það sem hæstv. forsrh. hafði eftir hæstv. fjmrh. Og ég bið menn að athuga það að ég spurði ekki út frá þessari röksemdafærslu heldur út frá því að fyrirheit var gefið fyrir ári síðan. Við það fyrirheit hefur ekki verið staðið. Margt af því sem hæstv. ríkisstjórn hefur lofað í tengslum við kjarasamningana kemur ekki fram í því frv. sem við nú ræðum. Hvernig geta aðilar vinnumarkaðarins treyst því að hæstv. ríkisstjórn standi við það sem hún hefur lofað núna frekar en í fyrra? Þetta var meginatriðið í því sem ég sagði. Ekki meira um þetta mál.
    Varðandi 7. gr. frv. tek ég undir það með hæstv. forsrh. að ugglaust hefði mátt orða þetta ákvæði betur. Ég vil ekkert segja meira um það mál en eigi veldur sá er varir. ( Gripið fram í: Varar.) Já, varar, mér er sama hvort er. Það getur hvort tveggja staðist. Það er ljóst að með því að orða ákvæðið á þessa leið getur hæstv. ríkisstjórn lent í vandræðum næsta haust, en auðvitað verður hún að sjá fram úr sínum eigin vandamálum.
    Að lokum þetta, virðulegur forseti. Hér er á ferðinni frv. sem að sumu leyti dregur úr tekjum ríkissjóðs og sveitarfélaga og eykur enn fremur útgjöld. Það verður aldrei of oft brýnt fyrir þeim sem um þessi mál fjalla að það sem skiptir langsamlega mestu máli er hvernig okkur tekst að eiga við ríkisútgjöldin á næstunni. Við höfum enn ekki séð tillögur hæstv. ríkisstjórnar. Við höfum heyrt á skotspónum, lesið í Morgunblaðinu, að þær tillögur séu tilbúnar og ef þær eiga að koma hér inn á Alþingi er auðvitað um það að ræða í verulegum mæli að verið er að gera bókhaldsfiff því að sum útgjöld sem þar eru til niðurskurðar eru útgjöld sem hvort sem er lenda á ríkissjóði fyrr eða síðar. Nú eru heimildir fyrir því að hallinn á sl. ári hafi verið tæpir 6 milljarðar kr. og ef fram heldur sem horfir verður hallinn á yfirstandandi ári a.m.k. sá sami, kannski meiri. Þetta þýðir að á næstu árum munu vaxtagreiðslur aukast, þessi vandi hlaðast upp. Ríkissjóður þarf á fjármunum að halda til þess að brúa bilið milli tekna og gjalda. Slík eftirspurn eftir nýju fjármagni innan lands veldur því að vextir hækka og sá grundvöllur sem kjarasamningarnir byggjast á er í stórkostlegri hættu. Þessu til viðbótar, það er annað mál sem ég ætla ekki að ræða hér, vil ég benda hæstv. ríkisstjórn á það að

nú þegar eru að skjóta upp kollinum ný vandamál í tengslum við svokallaða lausn sem átti sér stað í gegnum Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina og Hlutafjársjóð Byggðastofnunar. Augljóst er að þau fyrirtæki sem nutu fyrirgreiðslu úr þessum sjóðum koma til með að leita aftur á náðir hæstv. ríkisstjórnar eða þá næstu ríkisstjórnar þannig að í raun hafa vandamálin ekki verið leyst. Lausninni hefur verið frestað. Þetta tel ég að þurfi að koma fram við þessar umræður um leið og ég lýsi því yfir að að sjálfsögðu munu þeir hv. þm. Sjálfstfl. sem sæti eiga í félmn. taka þátt í því að reyna að hraða þessum málum í gegnum þingið, enda er þetta frv. að langsamlega mestu leyti í takt við þá kjarasamninga sem gerðir voru fyrir skömmu eða nánar tiltekið 1. febr.