Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Þriðjudaginn 20. febrúar 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu. Ég vil hins vegar þakka hæstv. forsrh. fyrir þau svör sem hann gaf hér áðan við fyrirspurn sem ég beindi til hans. Ég fagna því sérstaklega að það er alveg sameiginlegur skilningur okkar á því að í þeim bréfaskiptum sem fóru á milli hæstv. forsrh. og Sambands ísl. sveitarfélaga 20. des. felist samningur. Sá samningur er þess efnis að ríkissjóður leggur 300 millj. kr. á þessu ári til uppgjörs við sveitarfélögin auk 40 millj. kr. í sérstakt framlag vegna tannlæknaþjónustu.
    Ég fagna mjög ótvíræðri yfirlýsingu hæstv. forsrh. um það að þetta framlag verði ekki lækkað nema í samkomulagi við sveitarfélögin og fagna yfirlýsingu hans um það að hann muni nú hafa samband við forsvarsmenn sveitarfélaganna til að leita eftir slíku samkomulagi. Það er svo auðvitað sveitarfélaganna og samtaka þeirra að segja til um það hvort þau fallast á að þetta framlag verði lækkað eins og ríkisstjórnin hefur reyndar þegar gert tillögu um. Mér er reyndar ekki grunlaust um að sveitarfélögin muni í þeim efnum líta til þess að síðan þetta samkomulag var gert hefur verið lagður á þau virðisaukaskattur sem er einhvers staðar á bilinu 600--800 millj. kr. Það er hins vegar annað mál, en ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þessi svör, sem voru mjög afdráttarlaus, og sveitarfélögin hljóta auðvitað að fagna þeim.