Fjáröflun til vegagerðar
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um fjáröflun til vegagerðar. Flm. frv. auk mín eru hv. þm. Guðni Ágústsson, Ólafur Þ. Þórðarson og Alexander Stefánsson. Frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,1. gr.
    Á eftir 1. gr. laganna komi ný grein er verði 2. gr. og orðist svo:
    Greiða skal sérstakt innflutningsgjald --- hóffjaðragjald --- af hóffjöðrum. Gjald þetta skal nema 2 kr. á hverja hóffjöður. Innlendir framleiðendur skulu einnig greiða hóffjaðragjald. Innflutningsgjaldið skal greitt í tolli en gjalddagar innlendra framleiðenda skulu vera tveir, 1. janúar og 1. júlí ár hvert, en eindagi mánuði síðar.
    Hóffjaðragjald skal fylgja vísitölu byggingarkostnaðar.
    2. gr.
    2. gr. laganna, sem verður 3. gr., orðist svo:
    Gjöld samkvæmt ákvæðum 1. og 2. gr. skulu innheimt til ríkissjóðs. Tekjum samkvæmt lögum þessum skal einungis varið til vegagerðar samkvæmt vegáætlun nema tekjum skv. 2. gr. sem skal varið til að gera reiðvegi samkvæmt reiðvegaáætlun sem samgönguráðherra lætur gera til fjögurra ára í senn í samvinnu við samtök hestamanna og sveitarfélaga. Ríkissjóður skal að auki leggja til gerðar reiðvega jafnvirði hóffjaðragjalds næsta ár á undan.``
    Eins og fyrr segir er þetta frv. hluti af þremur málum sem flutt eru samhliða. ( PJ: Þetta er grundvallarmál.) Þetta er grundvallarmál. Ég þakka hv. þm. Pálma Jónssyni fyrir þetta inngrip og það er gaman að sjá að flutningur
málsins skuli gleðja þingmanninn því að það er ekki svo oft sem við sjáum svona gleðibros hér. Hitt er afar mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að hvort sem það eru reiðvegir eða annað sem við viljum gera gerum við það ekki án þess að hafa til þess fé. Reiðvegagerð er mjög sérstök að því leyti að reiðvegi nota eingöngu hestamenn. Stór hluti þjóðarinnar, og kannski sá stærsti, nýtir ekki reiðvegi. Þess vegna er óeðlilegt að leggja það sérstaklega á sem almennan skatt á alla að gera slíka vegi sem aðeins hluti þjóðarinnar nýtir.
    Ég held að hestamönnum sé það ljóst ef litið er til síðustu ára og hversu lítið hefur unnist í þessu þjóðþrifamáli, þessu mikla öryggismáli, að nauðsynlegt sé að afla til þessarar vegagerðar fjár og ég hygg að langflestir hestamenn séu þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt að þeir leggi nokkuð af mörkum. Með hverjum hætti slíkt gjald skal leggja á þá sem reiðvegi nota er auðvitað umhugsunarefni. Og það er ekki sama hvernig það er gert. Það gæti komið til greina að leggja slíkt gjald sérstaklega á hvert hross, það gætu fleiri leiðir komið til greina. Kannski á skeifur. Í þessu tilviki er það valið að leggja sérstakt gjald á hóffjaðrir. Þetta gjald munar hestamenn ekkert eða sáralítið um. Ég veit að hv. þm. Pálma Jónsson munar

ekki mikið um þetta gjald. ( Gripið fram í: Hann járnar aldrei.) Þess vegna er honum svona skemmt við álagningu þess. Eigi að síður mun þetta gjald skila til reiðvegagerðar einhvers staðar um 10 millj. kr. á ári sem er meira en veitt hefur verið eða ráðstafað til reiðvegagerðar. Jafnframt er í þessum lögum gert ráð fyrir að ríkissjóður leggi annað eins á móti. Það er því von okkar flm. að með því verði þáttaskil í gerð reiðvega, ekki bara í þéttbýli heldur víðar um landið, umferðaröryggi þar með stóraukið og fullt tillit tekið til þessa mikilvæga þáttar í okkar þjóðlífi í dag. Þannig mætti ef að líkum lætur verja um 20 millj. til slíkra framkvæmda á ári og síðan mundi það aukast með byggingarvísitölu.
    Þeir hestamenn sem ég hef rætt við hafa tekið þessu máli mjög vel. Þeir hafa raunar, ekki skal ég fullyrða að allir séu á einu máli, talið að með þessu opnaðist sú leið að eitthvað yrði gert í reiðvegum því menn segðu beint, ,,hestamenn leggja sjálfir ákveðið af mörkum``, þetta er þeirra mál. En úr því að þeir gera það þá er eðlilegt að úr ríkissjóði komi annað eins á móti og þar með verði unnt að koma þessum málum í viðunandi horf.
    Ég hygg að reiðvegafé á sl. ári hafi verið um 4 millj. Það er auðvitað ekki mikið hægt að gera fyrir slíka fjármuni og mál þessi eru í hinum mesta ólestri. Fjöldi hestamanna fer stöðugt vaxandi. Þessi íþrótt verður stöðugt vinsælli. Til hennar þarf að taka meira og meira tillit, ekki síst í okkar ferðamannaþjónustu. Það er þess vegna nauðsynlegt að þetta sé gert skipulega.
    Hér hafa flm. gert lauslega grein fyrir því hversu miklu þetta gjald gæti numið. Gert er ráð fyrir að 7000--8000 manns stundi hestamennsku um þessar mundir og séu að meðaltali með um fjóra hesta hver, sumir auðvitað miklu fleiri og aðrir færri. Ef gert er ráð fyrir að það geti farið upp undir 30 hóffjaðrir í hverja járningu þá gefur þetta tveggja króna gjald um 10 millj. kr. á ári. (Gripið fram í.) Það er auðvitað eftir því hversu lagnir menn eru við járningarnar, það er rétt. En það er alveg ljóst að nái frv. fram að ganga verða þáttaskil í gerð reiðvega á Íslandi. Ákveðnum aðila verður falið að sjá
um framkvæmdina, fjármunir verða tryggðir og áætlun gerð. Ég hygg og er reyndar sannfærður um að hér sé hið besta mál á ferðinni og vonast til að það njóti stuðnings á hinu háa Alþingi og legg til, herra forseti, að að loknum umræðum verði þessu frv. vísað til hv. fjh.- og viðskn.