Fjáröflun til vegagerðar
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Hv. 10. þm. Reykv., fyrsti flm. þessa máls, gat þess í framsöguræðu sinni að með samþykkt frv. yrðu væntanlega þáttaskil í gerð reiðvega í landinu. Ekki ætla ég að gera tilraun til að draga úr gildi þessarar fullyrðingar. En flutningur þessa frv. markar þáttaskil í miklu stærri og víðtækari skilningi en hinn hógværi flm. gerði hér grein fyrir í ræðu sinni. Hér hafa orðið þáttaskil í sögu Framsfl. Hér hefur fallið sterkasta vígi framsóknarmanna í skattamálum í sögu flokksins. Sú var tíð að það var gerð hörð hríð að hóffjöðrum í tollalögum og skattalögum. En Eysteinn stóð ávallt dyggan vörð um hóffjöðrina í samræmi við grundvallarstefnu flokksins í skattamálum. Í tollskrá voru skýr ákvæði um þann toll sem lagður skyldi á nagla, en þar stóð: ,,þó ekki hóffjaðrir``. Áratugum saman var gerð hörð hríð að þessum fyrirvara Eysteins, ,,þó ekki hóffjaðrir``, en alltaf stóð Eysteinn af sér stormana og hlóð upp varnarvígi í kringum hóffjöðrina. Nú eru mörg ár síðan nokkrum manni eða nokkrum stjórnmálaflokki hefur flogið í hug að leggja skatt á hóffjöðrina þegar það gerist svo allt í einu hér að nokkrir þingmenn Framsfl. koma fram og brjóta þetta vígi Eysteins niður á einum degi.
    Ég hef haft spurnir af því að ýmsir dyggir stuðningsmenn Framsfl. hafi haft nokkrar áhyggjur á fundum þingmanna að undanförnu vegna þessarar stefnubreytingar og þeir hafi jafnvel spurt sjálfa sig hvort von sé á því að flokkurinn falli frá fleiri grundvallaratriðum frá tíma Eysteins. Og það er auðvitað ástæða fyrir framsóknarmenn, þegar þessi tímamót verða í sögu flokksins, að spyrja sem svo hvort von sé á fleiri grundvallarbreytingum, hvort fleiri varnarvígi frá Eysteinstímanum eigi að falla á næstunni.
    Herra forseti. Ég kom fyrst og fremst hér upp til þess að vekja athygli á þeirri miklu hógværð sem var yfir ræðu hv. flm., að hann skyldi hafa látið hjá líða að geta þessara miklu þáttaskila í sögu Framsfl. sem þetta frv. er með því að þar með er fallið vígi Eysteins um hóffjöðrina.