Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Ég hef engu við þá framsögu fyrir nál. að bæta, sem hér var flutt. Nefndin hafði hraðar hendur um afgreiðslu þessa máls og leggur einróma til að frv. verði samþykkt.
    Við sjálfstæðismenn í nefndinni og í þinginu höfum viljað stuðla að því að þau fyrirheit sem gefin voru í tengslum við nýgerða kjarasamninga fái staðist og lýsum fyllsta stuðningi við kjarasamningana og markmið þeirra.
    En þannig er, herra forseti, að það er fleira í tengslum við þessa kjarasamninga en það eitt sem nefndin hefur haft til umfjöllunar í formi þessa frv. Fleiri atriði sem snúa að ríkisstjórninni sem ekki er endanlega upplýst hvernig hún hyggst mæta. Nokkuð var vikið að þessum málum hér við 1. umr. í gær, eins og m.a. því hvernig staðið yrði að því að lækka framfærsluvísitölu í samræmi við gefið fyrirheit, en óneitanlega hefur ríkisstjórnin gefið mun fleiri fyrirheit heldur en til meðferðar eru í þessu frv. og um nokkur þeirra ríkir mikil óvissa. Hér er til að mynda endurtekið það fyrirheit frá í fyrra að unnið verði að því að samræma skattlagningu fyrirtækja því sem gerist í samkeppnislöndunum en það bólar ekkert á frekari upplýsingum um hvernig því máli miði eða með hvaða hætti eigi að vinna að þessari samræmingu. Það liggur heldur ekkert fyrir um það hvernig eigi að lækka framfærsluvísitöluna í þessum mánuði. En alvarlegast er kannski að samtímis því sem í frv. er gert ráð fyrir að skuldbindingar Atvinnuleysistryggingasjóðs verði auknar og á hann lagðar nýjar byrðar í samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins, þá liggur fyrir að ríkisstjórnin hyggst skerða framlag ríkissjóðs til sjóðsins um 200 millj. kr. og þar með rýra getu hans, ekki bara til að standa við þessar nýju skuldbindingar heldur líka eldri skuldbindingar. Þetta rekst að sjálfsögðu hvað á annars horn, herra forseti.
    Ég þarf svo ekki að nefna það sem efst er á baugi þessi dægrin sem er fyrirheit ríkisstjórnarinnar um að koma á fót aflamiðlun til að stýra útflutningi á óunnum fiski. Það virðist vera uppi algjört stríð af hálfu ríkisstjórnarinnar við hagsmunaaðila í þessu máli og verður ekki annað séð en að yfirlýsingar hæstv. utanrrh. í blöðum í dag séu til þess eins fallnar að grafa undan möguleikum á eðlilegu samkomulagi við hagsmunaaðila um þetta mál. Hann er þar með óviðurkvæmilegar dylgjur um að formaður Landssambands ísl. útvegsmanna ætli sér eitthvert alræðisvald í þessum efnum. Minna má það ekki vera í munni hæstv. utanrrh. Hér liggur fyrir fyrirheit sem ríkisstjórnin er að koðna á að uppfylla að því er best verður séð.
    Það er margt fleira, virðulegi forseti, sem ástæða er til að nefna í tengslum við afgreiðslu þessa máls. Frv. sem nú er til meðferðar grípur á mjög mörgum lögum. Sumt er minni háttar, annað er meiri háttar. Ég tel til að mynda að breytingarnar sem eru ráðgerðar á lögum um ríkisábyrgð á launum séu að

mörgu leyti til bóta enda er það röng stefna að mínum dómi að láta aðila í atvinnulífinu halda að ríkið geti borið ábyrgð á öllum þeirra gerðum með beinum eða óbeinum hætti. Að menn geti tekið óábyrgar ákvarðanir í atvinnurekstri í trausti þess að ríkið beri síðan ábyrgð á launagreiðslunum, sem stofnað er til, komi til gjaldþrots. Og þær breytingar sem hér er verið að gera stefna a.m.k. að vissu leyti í þá átt að draga úr þessari ábyrgð og ég tel það rétt og skynsamlegt. Ég tel reyndar að það eigi að skoða þessi lög enn betur með það fyrir augum að draga úr ábyrgð hins opinbera á ákvörðunum í atvinnulífinu og draga úr fjárhagsskuldbindingum ríkissjóðs í því sambandi. En í þessari stöðu tel ég að það sé skynsamlegt sem hér er lagt til, en vek athygli á því að hér er jafnframt um að ræða auknar skuldbindingar ríkissjóðs gagnvart lífeyrissjóðum komi til gjaldþrota þar sem frv. gerir ráð fyrir því að greiðsluábyrgð ríkissjóðs gagnvart lífeyrissjóðum verði lengd í 18 mánuði við gjaldþrot fyrirtækja, enda hafi verið reyndar innheimtuaðgerðir þar sem krafan hefði mátt vera lífeyrissjóðunum kunn. Ég tel að það sé síðari tíma mál að draga úr þessari skuldbindingu á nýjan leik, jafnvel fella hana niður, þegar lífeyrissjóðunum hefur verið búinn eðlilegur rammi með nýrri löggjöf um starfsemi þeirra.
    Þannig er, virðulegi forseti, að kjarasamningarnir tengjast að sjálfsögðu mjög hinu almenna efnahagsumhverfi og það hefur ekkert farið á milli mála að eitt af stóru málunum í tengslum við það að forsendur þessara samninga geti staðist sé að ríkisstjórnin standi við sitt í tengslum við ríkisútgjöld, dragi úr ríkisútgjöldunum eftir mætti og reyni að sporna gegn þenslu af ríkisins hálfu. Allt er það að sjálfsögðu virðingarvert og rétt að gefa mönnum á þessu stigi sæmilegustu einkunn fyrir viðleitni hvað sem út úr því kann að koma á endanum.
    En það vill þannig til að í dag er útbýtt á borð þingmanna greinargerð um afkomu ríkissjóðs árið 1989, sem ég hygg að menn hafi haft á borðunum fyrir framan sig klukkan tvö þegar menn komu hér til starfa og þar koma fram býsna athyglisverðar upplýsingar, að því er mér sýnist á þeim stutta tíma sem ég hef haft þetta plagg í höndum. Þar kemur fram að rekstrarhallinn á ríkissjóði á
síðasta ári var 6 milljarðar og 55 millj. kr. Nú hafa auðvitað allir gleymt því hverju fjárlög fyrir það ár gerðu ráð fyrir, enda var því lýst yfir hér fyrir jólin að það skipti engu máli lengur því við tóku sérstök fjáraukalög samþykkt á Alþingi kvöldið áður en þingmenn fóru í jólaleyfi. Þá átti að vera búið að ná utan um þann halla sem yrði á árinu svo öllum væri ljóst í hvert stefndi. En þannig vill til að það er ekki minnst, að því er ég best fæ séð, einu aukateknu orði á fjáraukalögin og afgreiðslu þeirra hér á Alþingi í þessari greinargerð um afkomu ríkissjóðs á sl. ári.
    Á bls. 2 er sérstakur dálkur um fjárlögin eins og þau voru afgreidd á Alþingi upphaflega, annar um útkomuna 1989 og sá þriðji um útkomuna 1988. En það vantar fjórða dálkinn um hverju fjáraukalögin

fyrir árið 1989 gerðu ráð fyrir. Og það er kannski ekkert skrýtið, virðulegi forseti, að þennan dálk skuli vanta í þessa töflu miðað við þær yfirlýsingar og það stærilæti sem menn minnast úr umræðum um það frv. á sínum tíma. Það er kannski ekkert skrýtið að þennan dálk vanti vegna þess að ég sé ekki betur en að frá þeim tíma þegar fjáraukalög voru afgreidd á Alþingi kvöldið áður en þingmenn fóru í jólaleyfi hafi bæst við a.m.k. 100 millj. kr. í halla á ríkissjóði fyrir hvern virkan dag til áramóta.
    Það var ekki meiri nákvæmni í þessum áætlunum sem fjmrh. stærði sig svo af síðustu dagana fyrir jólahlé. Hallinn sem átti að verða 5 milljarðar 460 millj. kr. hinn 22. des. sl. er orðinn að 6 milljörðum 55 millj. samkvæmt þessari greinargerð sem liggur fyrir. Með öðrum orðum, það hefur bæst við vandi upp á um 600 millj. kr. frá því þessi mál voru síðast rædd hér á hinu háa Alþingi. Það hefur bæst við vandi upp á 600 millj. kr. sem þarf að fjármagna og sem ekki var vitað um til að mynda þegar aðilar vinnumarkaðarins gerðu sínar áætlanir fyrir u.þ.b. mánuði og sem samningarnir byggjast á og sem frekari áætlanir um niðurskurð ríkisútgjalda og eftirspurn ríkissjóðs eftir lánsfé byggjast á. Og hvaða áhrif ætli þetta hafi á forsendur þeirra kjarasamninga sem við erum að ræða í tengslum við frv. um ráðstafanir vegna þeirra? Það er a.m.k. augljóst að þessi aukna eftirspurn eftir lánsfé sem er til komin vegna þessa viðbótarhalla, hún verður ekki til að lækka vextina í landinu, hún verður ekki til að minnka eftirspurnina á lánamarkaðinum og hún verður ekki til þess almennt séð að greiða fyrir því að forsendur þessara samninga fái staðist.
    Auðvitað er það miður, auðvitað held ég að allir hljóti að harma það en það segir kannski mest um það hvað fjáraukalagafrv. á sínum tíma náði þrátt fyrir allt skammt. Þó það hafi vissulega verið virðingarvert framtak, eins og ég margtók fram í umræðum um það mál, að leggja fram slíkt frv. á líðandi fjárhagsári, þá er eigi að síður ljóst að við hafa bæst a.m.k. 100 millj. kr. á dag þessa síðustu viku sl. árs í halla á ríkissjóði. Og hver er eiginlega skýringin á þessu? Hver er skýringin á því að á milli jóla og nýárs eykst hallinn á ríkissjóði um 600 millj. kr.? Eru þetta lokatölurnar eða á enn eftir að bætast eitthvað við sem ekki hefur komið upp úr kafinu? Er hugsanlegt að eitthvað hafi bæst við fleira sem hefur verið flutt yfir áramótin og sé látið koma til gjalda á árinu 1990? Það væri vissulega forvitnilegt að fá einhver svör við því í þessari umræðu en fjmrh. sér ekki ástæðu til þess að vera hér, enda kannski ekki átt von á umræðum um þetta efni, þó hann hafi að ég hygg kynnt þetta mál fyrir fjölmiðlum fyrr í dag.
    Þannig vill til, herra forseti, að útbýtt hefur verið á borð manna í dag einnig frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1988 og frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1988. Það er góðra gjalda vert. Ég held að þingið ætti að sjá sóma sinn í því að afgreiða þau tvö þingmál á þessu þingi.
    En ég vek athygli á því að það er ósamræmi í því

sem segir um niðurstöðu á rekstrarreikningi ríkissjóðs fyrir árið 1988, annars vegar í frv. til fjáraukalaga og hins vegar í þeirri grg. sem útbýtt hefur verið til þingmanna og ég var að vitna til í tengslum við útkomu ársins 1989. Það segir í grg., í töflu á bls. 2 sem ég hef þegar vitnað til, að hallinn á árinu 1988 hafi verið 7,2 milljarðar, en það segir í fjáraukalagafrv. að gjöld umfram tekjur hafi verið 8 milljarðar 165 millj. á einum stað en á öðrum stað í sama frv. segir 8 milljarðar 112 millj. Þannig að þar skeikar, hvor talan sem kann að vera rétt í fjáraukalagafrv., u.þ.b. milljarði í uppgefnum halla á árinu 1988. Ekki skiptir þetta miklu máli á þessu stigi málsins en ég vil vekja athygli á því að þetta er auðvitað óþolandi ónákvæmni í skjölum sem þinginu eru sýnd og sem væntanlega eru birt í fjölmiðlum um þessi mál. Það má vel vera að fjmrh. þyki ekki skipta miklu máli hvort hallinn er 8 milljarðar eða 7 í þeirri sláturtíð sem blasir við í þessum efnum. Það muni ekkert um einn slíkan kepp upp á heilan milljarð í þessari sláturtíð, en fyrir okkur hér sem fáum þessi skjöl í hendur er þetta auðvitað óviðunandi ónákvæmni. (Gripið fram í.) Það er ekki mikill munur á því, virðulegi viðskrh., vegna þess að fjáraukalagafrv. gerir upp útkomu fjárlaganna á árinu og ég sé ekki betur en í þessari greinargerð sé átt við nákvæmlega það atriði eins og verið er að tala hér um fyrir árið 1989.
    En kjarni málsins í sambandi við þetta er sá að hér hafa bæst a.m.k. 600
millj. kr. óvænt við hallann undanfarnar vikur og mánuði sem verður að fjármagna einhvers staðar í frá. Það vantar allar skýringar á því efni og það vantar auðvitað alla tengingu milli þess máls og ríkisfjármálanna að öðru leyti í samhengi við þá kjarasamninga sem eru til umfjöllunar.
    Ég hyggst ekki lengja þetta mál, virðulegi forseti, eða gera sérstakar efnisathugasemdir við frv. sjálft sem hv. félmn. hefur afgreitt, enda er ég aðili að því nál. Ég tel að eins og þetta mál er allt í pottinn búið sé rétt og eðlilegt að hafa samkomulag um að afgreiða þetta mál hratt og örugglega í gegnum þingið. En ég vek athygli á þeim athugasemdum sem ég hef gert varðandi framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs, lögin um ríkisábyrgð á launum en ekki síst þau atriði önnur í fyrirheitayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 1. febr., þegar kjarasamningar voru gerðir, um ýmis önnur atriði sem ekki eru í þessu frv. og sem óljóst er um efndir á en eru þó eigi að síður ein af forsendum þess að aðilar vinnumarkaðarins gerðu þessa kjarasamninga af ótta við frekari áföll og árásir af völdum núv. ríkisstjórnar.