Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Anna Ólafsdóttir Björnsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. formanni félmn. Nd. fyrir skjót og góð viðbrögð við tilmælum Kvennalistans um að fjölgað yrði í hópi þeirra sem komu á fund nefndarinnar til umsagnar um það mál sem hér er til umfjöllunar. Þar á ég við að kallaðir voru til auk fulltrúa vinnumarkaðarins, Stéttarsambands bænda, Framleiðsluráðs landbúnaðarins og annarra þeirra aðila sem getið er í fyrri mgr. nál. Voru einnig kallaðir til fulltrúar frá Sambandi ísl. hitaveitna, Sambandi ísl. rafveitna, Þjóðhagsstofnun, Verslunarráði, Landssambandi lífeyrissjóða, Samtökum kvenna á vinnumarkaði og frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Nokkrir í viðbót voru kallaðir til en komust ekki vegna annríkis með svo stuttum fyrirvara. Þetta þykja mér góð vinnubrögð og vil koma því á framfæri.
    Þótt þetta frv. láti lítið yfir sér vakna ýmsar spurningar í kjölfar þess og í umfjöllun nefndarinnar var mikilvægt að fá úr þeim greitt eftir því sem hægt var. Þrátt fyrir það er vitanlega ekki verið að mæla með töfum á því að fyrirheit sem ríkisstjórnin gaf varðandi kjarasamninga verði efnd, síður en svo. Mjög gagnlegar upplýsingar komu fram hjá þeim sem kallaðir voru á fundinn. Mig langar aðeins að drepa á fátt eitt af því sem tilefni er til eftir þessa umræðu.
    Eins og glöggt kom fram í umræðunum um frv. í gær verður að líta á það í samhengi við aðra liði kjarasamninganna og í samhengi við aðrar aðgerðir sem ríkisstjórnin hyggst beita sér fyrir til að mæta auknum útgjöldum.
    Í umræðum á fundi nefndarinnar kom m.a. fram að þær auknu álögur á Atvinnuleysistryggingasjóð, þótt litlar þyki, sem felast í þessu frv. verða að skoðast í samhengi við mögulega skerðingu sjóðsins. Atvinnuhorfur og gjaldþrot fyrirtækja sem lítið lát er á hafa áhrif á stöðu sjóðsins og því er útilokað að fjalla um þarfa leiðréttingu á stöðu fólks sem er atvinnulaust langtímum saman eins og gert er í þessu frv., án þess að líta á stöðu sjóðsins í þessu
samhengi. Atvinnuleysistryggingasjóður hefur áður verið skertur með aðgerðum stjórnvalda svo sem menn muna væntanlega vel og þá með fyrirheiti um endurgreiðslu síðar. Það er ekki hægt að líta fram hjá þessu.
    Því miður kom fram í umfjöllun nefndarinnar og viðræðum við þá aðila sem hún kallaði til að lítið má út af bera til að rammi samningsins bresti og menn eru lítt búnir undir það að mæta jafnvel minnstu breytingum á forsendum samningsins.
    Svo sem kunnugt er urðu verðhækkanir á Hitaveitu Selfoss til þess að Starfsmannafélag Selfossbæjar felldi samningana og þótt forsvarsmönnum orkuveitna þyki hækkanir sinna veitna litlar og minni en þeir vildu sjá vegna rekstrarstöðu fyrirtækjanna, skipta þær miklu launafólkið sem þarf að bæta þessari litlu upphæð við útgjöld sín. Það er ekki hægt að reyna endalaust á þanþol láglaunafólks og það verður að fjalla um hvert eitt mál í því samhengi sem það er.

    Fram kom í máli fulltrúa Verslunarráðs og Þjóðhagsstofnunar að nokkur atriði, svo sem breytingar á dollaragengi að undanförnu, þ.e. áframhaldandi lækkun dollarsins, hafi komið mönnum í opna skjöldu og skekki nú þegar forsendur samningsins og þær forsendur sem byggt er á og samningurinn má ekki við miklu. Þetta á jafnt við um aðgerðir ríkisstjórnarinnar eins og annað sem tengist þessum samningum. Það ásamt fleiru sýnir svo að ekki verður um villst að útilokað er annað en reyna að tryggja sér heildarsýn yfir gang mála og reyna að spá í hvað fram undan er nú þegar hið fyrsta frv. sem tengist þessum samningum er til umfjöllunar.
    Varðandi skertar greiðslur úr ríkissjóði vegna ríkisábyrgðar á launum við gjaldþrot munu flestir sammála um að ástæða var til að kanna hvernig lækka mætti þennan kostnað og grípa til aðgerða. Þessar greiðslur eru orðnar verulegar. Þetta verður að gerast án þess að skerða réttindi þolenda, þeirra er verða atvinnulausir og þurfa á greiðslunum að halda. Það verður að hugsa fyrir öllu. Það er vissulega óþolandi til þess að vita að þessar lögbundnu greiðslur úr ríkissjóði hafa, að því er sagt er, verið misnotaðar vegna þess að kerfið bauð upp á það. Á það skal ég ekki leggja dóm, en þetta er ein af þeim röksemdum sem menn hafa notað og það er eðlilegt að spyrna við fótum þegar upphæðir hækka mjög vegna ríkisábyrgðar á launum fólks. En þetta verður að gerast þannig að engan saki og síst þá sem síst mega við því, láglaunafólkið og atvinnulausa.
    Ekki er hægt að sjá fyrir hvort sú leið sem farin verður með frv. er gallalaus. Ábendingar hafa komið og komu raunar seinast fram núna á fundinum í morgun um mögulega hættu á að einhverjir yrðu þolendur án þess að vera gerendur nema að litlu leyti. Tími og reynsla verða að skera úr um hvort þessar ábendingar reynast réttar. Ég tel skipta verulegu máli að það fé sem til ráðstöfunar er komi þangað sem þess er helst þörf og í því sambandi ítreka ég enn áhyggjur mínar vegna Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Ég vil spara mér frekari umræður í bili um ráðstafanir ríkisstjórnarinnar
vegna kjarasamninganna þótt fullt tilefni sé til að gera þeim skil í mun lengra máli, en ég veit að það munu gefast fleiri tækifæri síðar og lýk því máli mínu nú.