Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Umræðurnar um frv. til laga um ráðstafanir vegna kjarasamninga hafa verið býsna fróðlegar á margan hátt.
    Ég mæli hér í fyrsta lagi fyrir brtt. við frv. sem er flutt af okkur hv. 5. þm. Vesturl. Brtt. eru svohljóðandi:
    ,,Á eftir 5. gr. frv. komi ný grein er orðist svo:
    a. Á eftir 3. mgr. 3. gr. laganna komi tvær nýjar mgr. svohljóðandi:
    Sveitarstjórn er óheimilt að leggja nokkur önnur gjöld á fasteign, svo sem lóðaleigu, vatnsskatt, holræsagjald, sorphreinsunargjald og tunnuleigu, þannig að heildarupphæð gjalda á fasteignina miðað við fasteignamat til álagningar verði hærri í hundraðshlutum en ákvæði a- og b-liðar 3. mgr. kveða á um, sbr. þó 4. mgr.
    Þá er sveitarstjórn skylt að tilgreina hlutfall álagðs fasteignaskatts á fasteignaseðli og hlutfall hvers annars gjalds miðað við fasteignamat og jafnframt heildarhlutfall samanlagðra álagðra gjalda.
    b. Við 4. mgr. (sem verður 6. mgr.) bætist svohljóðandi málsliður: Þá er sveitarstjórn og heimilt, þegar sérstaklega stendur á, að hækka hundraðshlutana í 3. mgr. um 50%, enda sé ákvörðun um slíkt borin undir íbúa viðkomandi sveitarfélags í almennri atkvæðagreiðslu.``
    Hæstv. forseti. Sú brtt. sem hér er lögð fram kveður á um að ekki sé hægt að leggja á hærri heildarskatt á fasteignamat en 0,625% að öllum gjöldum meðtöldum. Við breytingu sem gerð var sl. vor á fasteignagjöldum tel ég að þetta sé mjög mikilsvert því að þar með voru brostnar forsendur fyrir þeim ákvæðum sem áður voru í lögum um miklu hærri prósentur af fasteignagjöldum vegna þess að nú er búið að samræma álagningarstofn fasteignagjalda um allt land. Þess vegna er mjög mikilsvert að kjósendur sjái það svart á hvítu hver álagning fasteignagjalda er. Í þessari brtt. er jafnframt kveðið á um það að
skylt sé að tilgreina á seðlinum hlutfall heildar gjaldaálagningar á fasteigninni þannig að hver og einn geti séð hver hin raunverulega álagning fasteignagjalda er og geti borið saman við önnur sveitarfélög.
    Í dag eru fasteignagjöld geysilega mismunandi eftir sveitarfélögum. Ef tekið er dæmi hér á höfuðborgarsvæðinu mundi fasteign sem á væru lagðar 100 þús. kr. á Seltjarnarnesi bera rúmlega 107 þús. í Reykjavík og 150 þús. í Kópavogi. Það sjá allir að slíkur mismunur á álagningu fasteignagjalda gengur ekki. Því er það þörf breyting að halda þessum gjöldum innan ákveðins ramma þannig að sveitarstjórn geti ekki lagt hærra gjald en 0,625% á fasteign en sé, eins og í b-lið er getið um, heimilt að fara fram á það við íbúa viðkomandi sveitarfélags í sérstökum tilfellum að fá að hækka þetta álag eða þennan skatt í heildartölu upp á 0,75%. Þessi gjöld eru mörgum þung og ekki hvað síst láglaunafólki. Þess vegna hlýtur það að vera krafa til sveitarstjórna og til

Alþingis að þessum gjöldum sé haldið innan ákveðins ramma, en svo er ekki í dag.
    Samkvæmt gildandi lögum er hægt að leggja á fasteignaskatt upp á 0,625%. Auk þess er hægt að leggja á ýmiss konar önnur gjöld, svo sem vatnsskatt, holræsagjald, sorphreinsunargjald, tunnuleigu og lóðaleigu þannig að álagningin verður miklu, miklu hærri. Það sem ég hef séð hæst er í kringum 0,9% sem er miklu hærra en gert er ráð fyrir í lögum. Þá er það auðvitað mjög bagalegt og í rauninni óskiljanlegt að sveitarfélögum skuli ekki vera skylt að geta þess á seðlinum hverjir skattarnir eru og hvað háir en það vantar í núverandi lög. Þessi brtt. kveður á um það og með því að samþykkja hana yrði séð til þess að fólkið sem greiðir þá skatta geti borið þá saman við skatta í öðrum sveitarfélögum þannig að það viti hvað er verið að leggja á það, en því sé ekki haldið leyndu eins og nú er með gildandi reglum um álagningu fasteignagjalda. Þessa brtt. tel ég því mjög brýna og mjög þarfa eins og málin eru. Þá er einnig spurning hvort þau gjöld sem nú eru lögð á með reglugerð standast ákvæði stjórnarskrár um það að skattar skuli lagðir á með lögum. Þegar þeir eru orðnir svo háir sem þeir eru núna, þá er það spurning hvort þeir standist ákvæði stjórnarskrár. Ég hef efasemdir um að svo muni vera.
    Ég mun í þessu sambandi ekki hafa fleiri orð um þessa brtt. en mér þykir rétt vegna þess að frv. til laga um ráðstafanir vegna kjarasamninga kemur auðvitað inn á fjármál ríkisins og vegna þeirra skjala sem voru lögð fram hér í hv. deild í dag frá fjmrh., annars vegar greinargerð um afkomu ríkissjóðs frá árinu 1989 og hins vegar frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningi fyrir 1988, að vekja athygli á nokkrum atriðum sem virðast vera röng. Það skiptir auðvitað máli þegar verið er að segja fólkinu hver skattbyrðin og hver rekstrarafkoma ríkissjóðs sé.
    Samkvæmt því sem hér má sjá í fskj. III frá fjmrn., greinargerð um afkomu ríkissjóðs 1989, kemur það skýrt fram að tölur fyrir árið 1988 stangast á við tölur á ríkisreikningi fyrir árið 1988. Ég vil ekki segja það að hæstv. fjmrh. hafi verið að setja rangar tölur fram í sínu skjali, sem er fjölritað, um afkomu ríkissjóðs en ég held þó að hann hljóti að hafa haft einhvern annan
reikning til að skoða og fara eftir en ríkisreikninginn sem hann leggur fram því ekki eru þessar tölur í samræmi við það sem þar stendur. Ef við skoðum nokkur dæmi um þetta þá er ljóst að heildargjöld 1988 eru allmiklu hærri á ríkisreikningi en í þessu skjali hér og sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu er ljóst að þau eru komin upp í 28,8% en ekki í 28,1% eins og hér stendur. Og það munar auðvitað töluvert um þessar tölur. Og þá veltir maður fyrir sér hvort tölurnar fyrir 1989 eru ekki líka rangar og allmiklu hærri. Og það segir að við séum með tölur hér sem gefa ekki rétta mynd af afkomu ríkissjóðs.
    Það kemur líka í ljós að hlutfall skatttekna af vergri þjóðarframleiðslu er miklu hærra 1988 en stendur í þessu skjali og þar munar svo miklum

upphæðum að maður verður að staldra við því þær eru komnar upp í 26,1% samkvæmt þeim tölum sem eru í ríkisreikningi en eru 23,8% samkvæmt þeim tölum sem standa á blaði fjmrh. Og það liggur ljóst fyrir að hækkanir á sköttum hafa orðið gífurlegar, frá 1985 hafa þeir hækkað um 19,8%. En samkvæmt tölum 1989, sem ég trúi ekki lengur, hafa þeir hækkað um 15,7% sem er mikil hækkun frá 1981, en minna frá 1980 því skattarnir fóru lækkandi til 1985. Það vita allir hver var fjmrh. það árið og lækkaði skattana á fólkinu. Það var hæstv. sendiherra í París, Albert Guðmundsson, sem lækkaði skattana þannig að þeir voru með því lægsta sem þekkist á þessum áratug. En síðan hafa þeir hækkað um 19% samkvæmt niðurstöðu ríkisreiknings fyrir árið 1988 sem er náttúrlega gífurleg hækkun. (Gripið fram í.) Það er skotið hér að mér að aðstoðarmaður fjmrh. var hv. þm. Geir H. Haarde, 17. þm. Reykv., þannig að hann ætti vel að kannast við þessar tölur.
    Þessi tvö skjöl segja að það hlýtur að verða að taka til athugunar þær greinargerðir sem koma frá fjmrn. því að þetta er ekki í fyrsta sinn sem núverandi fjmrh. virðist senda frá sér rangar upplýsingar til þingsins og það allverulega rangar. Ef á að taka mark á hæstv. ráðherra þá hlýtur maður að spyrja sig, fyrst hann getur ekki haft réttar tölur á tveimur skjölum sem eru lögð fram sama dag: Er hann að gera þetta vísvitandi, er hann að reyna að falsa tölurnar eða er hann bara ekki betri í samlagningu? Hann hefur kannski aldrei lært að fara með tölur. Manni dettur það í hug. Þessar tölur frá 1988 segja manni það að fjmrh. hafi sennilega ekki fengið mikla kennslu í reikningi og tími til kominn að hann læri svolitla samlagningu og frádrátt.
    Hæstv. forseti. Ég tel nauðsynlegt að þetta frv. fái skjóta afgreiðslu en vil þó ítreka að þær brtt. sem fyrir liggja frá okkur hv. 5. þm. Vesturl. fái umfjöllun og þinglega meðferð. Ég á von á því að hv. félmn. fái þessar tillögur til meðhöndlunar. Það hlýtur að vera krafa í nútímaþjóðfélagi að fólkið sem greiðir skattana fái að vita hverjir þeir eru og hvernig þeir eru lagðir á og geti borið sig saman við fólkið í næstu sveitarfélögum. En með núverandi álagningarseðlum og núverandi kerfi er það ekki hægt.