Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Mér er ánægja að staðfesta, og það kemur fram í yfirlýsingu til bænda, að sú launauppbót eða þau laun, 3%, sem greidd hafa verið af niðurgreiðslufé, hljóta að greiðast þannig áfram á nýju verðlagsári ef ekki er svigrúm til að gera hækkun á verðlagsgrundvellinum. Ef verðlagsgrundvöllurinn fer yfir rauða strikið þá verður að greiða það af niðurgreiðslufé eða réttara sagt af verðlagi landbúnaðarafurða. Um þetta er fullt samkomulag og staðfest af ríkisstjórn og ég vil endurtaka það hér. Ég vil vekja athygli á því að slík greiðsla fellur ekki nema að hluta á árið 1990 að sjálfsögðu.