Boðun kvöldfundar
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Þegar þessum fundi var frestað hér í dag kom það mjög á óvart að hæstv. forseti tilkynnti að fundinum væri frestað til kl. 8.30 í kvöld. Ég bað um orðið um þingsköp. Það var ekki hægt af því að það var búið að fresta fundi. Þess vegna vil ég nota tækifærið nú og gera athugasemd við hvernig að þessu var staðið. Það er venjan þegar kvöldfundir eiga að fara fram að það sé fyrirvari þannig að þingmönnum sé tilkynnt það, annaðhvort úr ræðustóli eða þá að það er formlega afgreitt á milli þingflokksformanna og forseta. Svo var ekki gert að þessu sinni og ég vil gera athugasemd við þetta. Mér þykir það mjög miður. Við erum að ræða hér mjög mikilvægt mál og við þurfum að hafa til þess góðan tíma og þannig stendur á hjá mér að ég er í raun og veru annars staðar á þessari stundu, kom hingað niður eftir til þess að spyrjast fyrir hvort það sé virkilega meiningin að þessum fundi verði fram haldið í kvöld eða hvort hægt verður að fresta honum.
    Ég tel að forseta hefði borið að tilkynna það í upphafi fundarins í dag eða a.m.k. það tímanlega að þingmenn hefðu haft tækifæri til þess að ræða þetta við forseta sinn meðan þingfundur stóð. En svo var ekki og þess vegna vil ég gera þessa athugasemd nú og endurtaka þessa spurningu mína hvort meiningin sé að halda þessum fundi áfram eða hvort hægt er að verða við þeirri ósk að honum verði frestað.