Boðun kvöldfundar
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Ég tala nú ekki æðioft um þingsköp en mér finnst brýnt að gera það nú.
    Ég skil forseta þannig að hann ætli ekki að verða við þeirri ósk að fresta þessum fundi eins og við höfðum þó búist við að gert yrði og ég hlýt að harma það. Það fer eitthvað á milli mála ef formaður þingflokks Sjálfstfl. hefur vitað af því að þessi fundur yrði haldinn hér í kvöld því að hann sagði okkur skömmu áður en fundi var frestað að svo yrði ekki. Hvort eitthvað hefur verið talað í gær um það að einhverjir kvöldfundir gætu orðið í þessari viku er allt annað mál. Við okkar flokksformann var ekki talað um að þessi fundur yrði hér í kvöld.
    Þetta mál og öll meðferð þess er með algjörum eindæmum. Ég hef verið viðloðandi þingið nokkuð lengi en ég minnist ekki að vinnubrögð hafi verið með þeim hætti sem nú tíðkast. Sérstaklega harma ég að þurfa að gagnrýna störf hæstv. forseta, þess venjulega mjög sanngjarna manns og formanns allshn. þar með.
    Það var með ólíkindum á fundi í hv. allshn. í gær hvert ofurkapp var á það lagt að kljúfa nefndina og hætta brýnum störfum, að reyna að komast til botns í því mikla máli sem hér er um að ræða, þ.e. stofnun umhverfisráðuneytis, og hvaða hlutverk því ættu að verða falin, en allir vita að í báðum þingdeildum hefur verið mjög mikið starfað að því að samræma sjónarmið og reyna að greiða úr þeirri flækju sem óhjákvæmilega hlaut að koma upp þegar til þess var gripið að ætla sér að breyta stjórnlögum til þess að geta komið nýjum manni í ráðuneyti þegar stjórnarskipti höfðu orðið hér eða öllu heldur Borgfl. var keyptur til samvinnu við þá flokka sem voru í ríkisstjórn. Það er auðvitað vítavert út af fyrir sig að ætla að hrófla við stjórnskipunarlögum bara af hentisemi einni saman. Það tíðkast nú yfirleitt ekki í siðuðum þjóðfélögum og
hefur ekki tíðkast á þessu landi því að auðvitað ganga lög Stjórnarráðs Íslands næst sjálfri stjórnarskránni og það er betra að umgangast þau með varkárni.
    Mig langar að bera fram hér eina tillögu sem gæti orðið til lausnar á þessu máli og beini henni til hæstv. ráðherra Hagstofu sem raunar er nú líka samstarfsráðherra Norðurlandaráðs og ég geri það af heilum hug og ég hef ekkert að saka þann ágæta mann um, hæstv. ráðherra Hagstofu. Við störfuðum lengi saman og ég held að okkur hafi líkað vel að starfa hvorum með öðrum. Ég held að hann geti leyst þetta mál ósköp vel með því einfaldlega að standa við orð sín úr sjónvarpsþætti um daginn, að óska þess að þessi tvö þingmál fylgist að og að við vinnum öll að því, þessa daga til helgarinnar og vikuna eftir að Norðurlandaráðsfundum lýkur, að reyna að greiða fram úr þessari flækju og leysa málið. Hæstv. ráðherra sagði að vísu í frammíkalli, hann hefur lítið tekið þátt í umræðum ef nokkuð um þetta mál sem væri þó eðlilegt að hann gerði, að þetta hefðu verið vangaveltur sem allir aðrir sem á þessum fundi voru

skildu, að ég hygg þannig, að hann hefði sagt að tilbúnar væru reglugerðir sem tækju gildi sl. miðvikudag og að frv. sem hér er til umræðu yrði þá afgreitt og gert að lögum. Náttúrlega vissi hann ekkert um það hvort það mundi verða. Það er Alþingis að ákveða hvenær það lýkur störfum um hvert einstakt mál, en sjálfsagt hefur hann haft einhver loforð samt frá stjórnarflokkunum eða einhverjum ráðherrum um það að þetta yrði og kannski talað þess vegna á þennan hátt. Nú hefur það ekki orðið og þá finnst mér að hann væri maður að meiri að sýna það og sætta sig við það. Hann getur auðvitað mætt í Norðurlandaráði sem samstarfsráðherra, reyndar sem ráðherra Hagstofu. Það þótti nú einu sinni ekkert athugavert við það að Hagstofan væri sérstakt ráðuneyti. Þar unnu að vísu fáir menn og spöruðu mikla fjármuni. Og það voru ekki margar stofnanir að sinna hagsýslu með mörg hundruð mönnum og öllu þessu tölvuflóði þannig að enginn botnar neitt í neinu. Þá voru hlutirnir sæmilega einfaldir og Hagstofan var fyrirmynd annarra stofnana og það er engin vanvirða að vera ráðherra Hagstofu um eitthvert skeið.
    Ég á kannski ekki von á að við þessari ósk verði orðið en ég vil ítreka þá ósk sem hv. þm. Salome Þorkelsdóttir bar hér fram og það er ósk þm. Sjálfstfl. að þessum fundi verði frestað.