Boðun kvöldfundar
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Hagstofuráðherra (Júlíus Sólnes):
    Virðulegi forseti. Það er rétt að ég hef ekki tekið þátt í umræðunni hingað til til þess að gera grein fyrir misskilningi sem því miður virðist hafa komist inn hjá allmörgum þingmönnum varðandi ummæli mín, bæði á fundi með Verkfræðingafélaginu hér á dögunum og svo í sjónvarpsþætti fyrir alllöngu síðan. Í þeim sjónvarpsþætti talaði ég um að í sjálfu sér þætti mér það ekkert óeðlilegt að hægt væri að afgreiða þessi tvö mál samhliða út úr Ed. Það sem ég átti við þá, við skulum hafa það í huga að það er kannski liðinn rúmlega mánuður síðan, var að ef þinghald væri með eðlilegum hætti teldi ég, og tel nú, að bæði þessi mál gætu verið komin út úr Ed. og orðin að lögum. Þinghald hefur bara ekki verið með eðlilegum hætti og þar með hafa þessi mál hvorki getað fylgst að né eru þau orðin að lögum. Það er mikill þingmeirihluti á bak við þessi tvö mál og þar af leiðandi er það ekkert óeðlilegt þó að ég fyrir kannski mánuði síðan hafi talið að það gæti vel gengið eftir að þessi mál fylgdust að, en það hefur því miður farið á annan veg.
    Varðandi fund sem ég átti með verkfræðingum líklega fyrir tæpum hálfum mánuði, þá tók ég svo til orða --- það voru vangaveltur eins og ég reyndar sagði í frammíkalli hér á dögunum til að skýra það mál út --- að það væri ekkert því til fyrirstöðu að stjórnarráðsfrumvarpið gæti orðið að lögum jafnvel nk. miðvikudag. Nú varð það ekki. Ég get ekkert sagt um það hvenær mál verða hér að lögum. Ég hef þó setið hér tvö og hálft þing og ég hef séð þingmál fara hér í gegn og verða að lögum með ógnarhraða þannig að það er mjög erfitt að segja neitt um það fyrir fram. Á þeim tímapunkti þegar þessi fundur var haldinn í Verkfræðingafélaginu var í sjálfu sér ekkert sem mælti gegn því að það yrði að lögum í þeirri viku. Þessi fundur var, ef ég man rétt, á þriðjudegi, eða á mánudegi kannski, og það var ekkert út af fyrir sig því til fyrirstöðu að frv. um Stjórnarráð Íslands, þ.e. breytinguna þar sem umhverfisráðuneyti er bætt við í upptalningu á ráðuneytum, gæti orðið að lögum þannig að það var í sjálfu sér ekkert mjög óeðlilegt hvernig ég tók til orða þar. Ég var ekkert að segja að það yrði svo, heldur að það gæti orðið svo. Það er mikill munur þar á.
    Varðandi spurningu sem ég fékk um verkefnin: Hvað þá með verkefnin? Ég sagði að það kæmi til greina að einhver verkefni yrðu flutt yfir með reglugerð og reyndar væru menn að íhuga þau mál. Ég held að fréttaflutningur af þessum fundi hafi eitthvað skolast til og vildi bara fá tækifæri til að leiðrétta hann svo að það kæmi skýrt fram hvað þar hefði farið fram.