Boðun kvöldfundar
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég hafði að vísu heyrt ávæning af því að til greina kæmi að halda kvöldfund í þessari viku en ég trúði því satt að segja ekki að úr því yrði í kvöld. Þegar maður lítur á dagskrá þessa fundar kemur í ljós að hér er ekkert mál sem er brýnt en á hinn bóginn var ekki talin ástæða til að ræða út um frv. um stjórn fiskveiða í gærkvöldi sem er áreiðanlega merkilegasta mál sem liggur nú fyrir þinginu og mest knýjandi. Þessi stjórn deildarinnar lýsir því með undarlegum hætti hvaða mat forseti hennar hefur á því hvaða mál þurfi að ganga fram og sé nauðsynlegt að láta sitja fyrir.
    Ég trúi því raunar ekki enn að hæstv. forseti haldi því til streitu að þingfundur verði í kvöld. Honum er kunnugt um að einstakir þingmenn höfðu bundið sig og honum er kunnugt að það er af þeim sökum bagalegt fyrir þá að halda þessum fundi áfram.
    Það er annað, sem kom hér fram hjá hæstv. ráðherra Hagstofu Íslands, sem nauðsynlegt er að vekja athygli á. Hann talaði um það að ef þinghald væri með eðlilegum hætti, það eru þau orð sem hann notaði, hefðu frumvörpin tvö fylgst að, frv. um stofnun nýs ráðuneytis og frv. um þau verkefni sem í ráðuneytinu eiga að vera. Nú hlýt ég að skilja þessi ummæli svo, herra forseti, að með sínum hætti sé ráðherra Hagstofu að finna að því að þessi ofuráhersla skuli lögð á það að frv. um Hagstofu Íslands skuli knúið hér fram án þess að verkefnin fylgi og hlýt að skilja ummæli ráðherrans á þann veg að hann kunni ekki þessum vinnubrögðumn og finnist ástæðulaust að hraða frv. með þessum hætti. Ég á síður von á hinu að hæstv. ráðherra eigi við, þegar hann talar um að þinghald sé ekki með eðlilegum hætti, að stuðningsmenn, flokkar ríkisstjórnarinnar, hafi ekki komið sér saman um það hvaða málaflokkar eigi að fara í hið nýja ráðuneyti. Við munum eftir því þegar þessi ríkisstjórn var mynduð að ekki aðeins einstakir venjulegir fagráðherrar höfðu orð á því að
nauðsynlegt væri að verkstjórnin væri góð. Mig minnir að sá maður sem nú er fyrir hópnum, hæstv. forsrh., hafi sagt í sömu andránni og hann komst aftur í stólinn að nú væri góður verkstjóri tekinn við stjórninni í Stjórnarráðinu. Og eins og við heyrðum í kvöld, þegar talað var um fiskmiðlun, hefur hæstv. forsrh. það alveg í hendi sér að tukta fagráðherrana til og þingflokkana og láta þá samþykkja hvaðeina þegar honum sýnist eða honum þykir tími til kominn. Það getur verið að ráðherra umhverfismála eigi við, þegar hann talar um að þinghald sé ekki með eðlilegum hætti, að hæstv. forsrh. hafi ekki beitt sér nægilega í málinu, að hæstv. forsrh. hafi ekki lagt á það neina áherslu að fylgifrv. fylgi og hann sé með þessum hætti að senda forsrh. sínum tóninn, skamma Albaníu þegar hann meinar Kína.
    En mér fyndist, herra forseti, nauðsynlegt að ganga úr skugga um hvort fyrsta skýringin sé ekki rétt, að hæstv. ráðherra Hagstofu Íslands sé í raun og veru að biðja um að umræðum um þetta mál verði frestað

þangað til það frv. kemur til deildarinnar sem fjallar um þau verkefni sem í umhverfisráðuneyti eiga að vera. Það er auðvitað hálf nöturlegt að vera húsbóndi yfir tómu húsi.