Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Það er nú raunar bagalegt að hæstv. forsrh. skuli ekki hafa svarað þeim fyrirspurnum sem fyrir hann hafa verið lagðar hér í þessari umræðu svo að hægt væri að fjalla um hans svör samtímis öðru því sem hér hefur komið fram. Umræðunni er ekki lokið, eins og kunnugt er, og 3. umr. til baka. Það verður þess vegna að álykta að hæstv. forsrh. líti svo á að þingmenn hafi nægan tíma til þess að fjalla um svör hans á síðari stigum þessarar umræðu. Annars hefði forsrh. að sjálfsögðu leitast við að auðvelda mönnum að ná hér skilvirkri umræðu með því að svara þeim spurningum sem fyrir hann hafa verið lagðar.
    Þetta er nú e.t.v. eitt dæmið um áhuga ríkisstjórnarinnar á því að koma þessu máli áfram, að það reynist tæpast unnt að fá svör við þeim spurningum sem hér eru lagðar fram. Og hvað skyldi þeim hv. ræðumanni, sem lýsti hér vinnubrögðum þessarar deildar með þeim orðum að hér ættu sér stað þingtæknilegar hundakúnstir, finnast um það að hæstv. forsrh. skuli ekki ganga hér til svara og auðvelda þannig umræðuna. Það væri afar mikilvægt ef hv. þm. Karl Steinar Guðnason mundi hér síðar í umræðunni segja frá því, svo að engin tvímæli þyrftu að vera hér á ferðinni, hvort þessi vinnubrögð féllu undir þá skilgreiningu sem hann hafði hér í frammi í kvöld, að hér væri um þingtæknilegar hundakúnstir að ræða, eins og ræðumaður orðaði það.
    Það voru ýmis fleiri blóm sem sprungu út þegar hv. ræðumaður var að flytja ræðu sína hér fyrr í kvöld. ( Gripið fram í: Farðu nú ekki að nefna fjólur.) Hann hafði m.a. sérstaklega orð á því að mikil þörf væri á því að ráða skipstjóra í brúna og áhöfn á skútuna. Og þegar ræðumaður var inntur eftir því hvort ekki væri ástæða til þess að fá skútuna á undan skipstjóranum sagði hann hér úr þessum ræðustól að ríkisstjórnin væri skútan. ( KSG: Ekki var það nú rétt.) Þannig hefur fengist býsna góð skýring á því hvað stjórnarliðinu liggur
hér á. Það vantar skipstjóra á skútuna og hv. þm. Karl Steinar Guðnason hefur sagt að skútan sé ríkisstjórn og má nú náttúrlega nærri geta hvort varaformanni Verkamannasambandsins finnist ekki nokkuð liggja á að fá skipstjóra á skútuna.
    En annar hv. þm., formaður þingflokks Borgfl. og frsm. fyrir þessu nál., hv. þm. Guðmundur Ágústsson, tók raunar af öll tvímæli í þessum efnum. Hann sagði að Norðurlandaráðsþing væri skammt undan og þar væru umhverfismál stærsti og þýðingarmesti málaflokkurinn og það væri engin leið að fara með ókrýndan ráðherra á þann fund. Ég tala nú ekki um ef bætt er við skýringu formanns þingflokks Alþb. sem komst þannig að orði að tilgangurinn væri sá að kaupa hatt á haus eins ráðherra. Þess hefur nú reyndar orðið vart að meiri háttar ráðherrar í ríkisstjórninni hafi verið að kaupa sér hatta upp á síðkastið og skýring formanns þingflokks Alþb. er þannig til í raunveruleikanum. ( FÞ: Heldurðu að þetta hafi ekki

verið á þunnhærðan ráðherra?) Það er sem sagt skýring þessara tveggja þingflokksformanna ríkisstjórnarflokkanna, skýringin á öllu þessu óðagoti, að þegar Norðurlandaráð kemur má ekki vera hér hattlaus ráðherra. ( Gripið fram í: Ókrýndur ráðherra.) Ókrýndur hattlaus ráðherra. En þá er það bara spurningin hvort mönnum liggur svona mikið á með Norðurlandaráð. Væri ekki hægt að hugsa sér að taka sér tíma í það að ljúka þessu máli og velja góðan hatt og líka góðan ráðherra? Og nú vill svo til að það stendur illa á hjá fleirum. Þannig hefur verið sagt frá því að um þessar mundir vanti að krýna forsætisráðherra í Svíaríki og menn eru með hugmyndir um það að Ingvar Carlsson muni ekki vilja koma hingað sem umboðslaus ráðherra og fregnir hafa gengið um það að í Svíaríki eigi að fara að stofna nýja ríkisstjórn undir forsæti Ingvars Carlssonar og með þátttöku Miðflokksins þar. Spurningin er hvort ekki væri ástæða til að hafa samband við Svía, af því að svona stendur á í því landi, um að þessar tvær þjóðir beittu sér nú fyrir því að fresta Norðurlandaráðsþingi þar til búið væri að krýna íslenska umhverfisráðherrann og kaupa á hann nýjan hatt. Menn hafa held ég tæpast orðið varir við aðrar áherslur en þessar. Þá væri líka svo komið að það væri komið andlit á ríkisstjórnina og skipstjóri í brúna, svo að notuð séu orð hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar sem hefur sýnilega miklar áhyggjur af því að ásjóna ríkisstjórnarinnar sé ekki með þeim hætti á Norðurlandaþingi sem boðlegt sé.
    Hér í þessari umræðu hafa komið fram nokkrar áherslur í sambandi við umhverfismál og sérstaklega var eftirtektarverð ræða hv. 6. þm. Vesturl. Danfríðar Skarphéðinsdóttur sem talaði um mikla þörf á umhverfisráðuneyti vegna þess að gróðureyðing og fok væru mesta umhverfisvandamálið. Það má vel vera að menn geti skilgreint hlutina með þeim hætti að gróðureyðing og fok séu mikið umhverfisvandamál á Íslandi, en ætli sandfok og sandbyljir stöðvist nú svo mikið þó að sett sé á stofn nýtt ráðuneyti umhverfismála og nýr hattur keyptur á hæstv. hagstofuráðherra? Ætli það breyti nú svo afar miklu um sandstormana þó að það sé gert? ( Gripið fram í: Fýkur kannski af honum hatturinn.)
    Það liggur nú alveg ljóst fyrir að í þessum efnum hafa menn náð miklum
árangri á síðustu árum og það færist mjög margt til betri vegar í uppgræðslu- og landgræðslumálum. Og ég er alveg sannfærður um það að það er ekki vegna neinnar umhyggju fyrir gróðrinum í landinu, græðslu landsins, sem menn eru að setja á fót þetta umhverfisráðuneyti. Það er náttúrlega augljóst mál að þeir sem ganga þar harðast fram hafa af því áhyggjur að slík stofnun sé þarflaus og þess vegna er verið að leitast við að koma þar inn áhugaverðum málaflokkum eins og landgræðslu og skógrækt.
    Hv. þm. var hér með tölur um það hvað gróður hefði minnkað mikið frá landnámstíð. Ég veitti því alveg sérstaka athygli að þingmaðurinn hafði engin orð um það hverjar hefðu orðið

gróðurfarsbreytingarnar á síðustu árum og áratugum. Það skyldi nú vera eitthvert undrunarefni þótt graslag breyttist í því landi sem var ónumið, þar sem engin búseta var, þar sem engir grasbítar voru. Og það er í rauninni alveg stórmerkilegt að þetta áhugasama fólk um gróðurvernd tekur gjarnan samlíkingar frá þessum tímum, frá upphafi landnáms, og hefur þó ekki minnstu hugmynd um það hvað landið var mikið gróið þá. Ég tala nú ekki um það að minnst sé á það hvernig veðráttan hefur leikið þetta land frá landnámi og hvað gróðrarskilyrðin hafa verið ákaflega misjöfn frá því að hér hófst búseta manna.
    Það verður náttúrlega ekki komist hjá því, vegna þessara ummæla hv. þm., að fara nokkuð ítarlega yfir þau mál þó að ekki sé ástæða til að lengja þessa umræðu sérstaklega af þeirri ástæðu. En hv. þm. svona til viðvörunar, þá er nú kannski ástæða til að minnast á örfáar staðreyndir svo að Kvennalistinn geti hugað að einhverju öðru gróðurfari í þessu landi en var þegar Ingólfur Arnarson kom hingað í fyrri tíð. Það er t.d. sannað að um þær mundir hafi verið allt önnur og betri veðrátta í landinu en síðar varð og það vill svo til að um þessa hluti þarf ekki að deila því að jöklarannsóknir í suðurjaðri Vatnajökuls sýna að á fyrstu öldum byggðar á Íslandi var snælínan um 1100 metra yfir sjávarmáli, það er líkt og hún hefur verið á þessari öld, en í þrjár aldir og líklega liðlega það hefur verið sannað að snælínan hefur verið 400 metrum lægri. Hún hefur verið um 700 metra yfir sjávarmáli. Snælínan hefur verið í líkri hæð og Kjölur er og Sprengisandur þannig að í þessar þrjár aldir hafa verið þar allt önnur gróðrarskilyrði en áður voru þegar menn fóru þar til kola og allt önnur gróðurfarsskilyrði en eru þar enn í dag. En á þetta er ekkert minnst, ekki einu orði. Ég held að það væri ráð fyrir Kvennalistann að kynna sér aðeins hvernig náttúrufarið hefur verið á Íslandi í gegnum aldirnar.
    Ég held að ég fari rétt með og muni það rétt að t.d. við landnám hafi ýmsir jöklar sem nú eru ekki verið til, eins og Ok og Drangajökull, svo að ég nefni dæmi, eins og jöklarnir austur af Vatnajökli sem nú eru, Hofsjökull og Klofajökull. Það liggur fyrir að langt fram eftir öldum var enginn jökull á milli Hornafjarðar og Möðrudals svo að dæmi séu nefnd. Þetta voru samgöngulönd. Og hvað skyldi hafa gerst á Íslandi við allar þessar stórkostlegu breytingar á náttúrufari landsins? Hvað skyldi hafa gerst þegar úrkoman var bundin í snjó og gadd? Hvernig skyldi hafa farið með grunnvatnsstöðuna t.d. norðan við Vatnajökul þar sem lönd hafa eyðst á síðari árum svo að dæmi séu nefnd? Hvenær talar Kvennalistinn um þetta? Það er hægt að rekja það með mjög nákvæmum hætti og það er ástæða til að gera það hér í þessari umræðu þótt síðar verði. Það er hægt að rekja með mjög nákvæmum hætti, t.d. hvenær gróðurlendi í Austur-Skaftafellssýslu eyddust. Það eru fyrir því alveg óyggjandi upplýsingar. Þar voru gróin lönd endanna á milli þegar Ingólfur Arnarson fór þar um. Þreföld bæjaröð á Skeiðarársandi svo dæmi séu nefnd. Og reyndar á öllu því svæði. Fjögur hundruð manna

byggð eyddist svo á einni nóttu í Öræfasveit, mesta náttúruslys sem hefur orðið á Íslandi. Hvenær talar Kvennalistinn um þessar staðreyndir? Skyldi það hafa einhverju breytt þótt Júlíus Sólnes, hæstv. hagstofuráðherra, hefði verið kominn með titil og hatt á hausinn þegar þetta átti sér stað? Ekki held ég það.
    Svona mætti lengi telja. En um þessa hluti þarf ekki að deila vegna þess að þeir eru allir skráðir og liggur allt saman fyrir með alveg óyggjandi hætti. En það er svo annað að af því að Kvennalistinn sér svona vel til fortíðarinnar þá ætti hann að geta aðeins hugað að nútímanum og séð hvernig gróðurfar er að breytast í landinu þegar veðrátta hefur breyst, þegar betri tíð er komin. Löndin sem eyddust á sautjándu, átjándu og nítjándu öld eru öll að gróa upp. Jöklarnir hafa minnkað, vatnsföllin hafa einnig minnkað. Landbrot hefur ýmist verið stöðvað eða hefur af öðrum ástæðum minnkað að mjög verulegu leyti og þessi lönd eru að gróa upp. Og það væri vissulega ástæða til, ef maður hefði verið undir það búinn, að fara yfir ummæli þeirra manna sem sáu þessa eyðingu verða að raunveruleika, sem ferðuðust þá um íslenskar byggðir. Þessar lýsingar eru fyrir hendi. Og meira að segja sáu þeir menn sem eru mér sérstaklega hugstæðir í þessum efnum, eins og Eggert Ólafsson og Sveinn Pálsson, þeir sáu það fyrir sér hvað mundi síðar gerast. Þeir sögðu fyrir um það að þau lönd sem voru að tortímast í aur og grjót mundu gróa upp síðar. Þetta voru menn með þekkingu sem vissu hvernig náttúruöflin voru í þessu landi.
    Ég tek hins vegar undir það, sem ég vildi vona að ég hefði skilið rétt hjá
hv. þm. Danfríði Skarphéðinsdóttur, að það þyrfti að kenna meira um náttúrufarið í landinu. Og það held ég að sé mikið grundvallaratriði, eitt af því þýðingarmesta sem ætti að kenna í skólum landsins, fyrir utan að sjálfsögðu tunguna, það er náttúrusaga, eins og hv. þm. sagði hér fyrr í þessari umræðu. Það er saga þessa lands, náttúrusaga þessa lands. Og það gæti vel verið að ef menn hefðu verið eitthvað ofurlítið betur að sér í henni hefðu menn séð að umhverfisráðuneyti sem slíkt mundi ekki hafa áhrif á gróðurfarið í landinu.
    Það er náttúrlega grundvallaratriði að menn athugi að fjármagn til þessara verka verður ekki til af sjálfu sér. Hæstv. forsrh., sem hefur verið manna duglegastur í því að gera tillögur um að skera niður fjárveitingar til landgræðslu og skógræktar, ætti að átta sig á því að auðvitað verður að taka einhvers staðar það fjármagn sem á að fara til þess að reka nýtt umhverfisráðuneyti. Þess hefur ekki orðið vart t.d. í fjárlagagerð og það hefur ekki komið fram opinberlega í sparnaðartillögum hæstv. ríkisstjórnar að það eigi að skera niður í ráðuneytunum, spara þar, þar sem mest eyðslan hefur átt sér stað í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þar halda menn áfram iðju sinni. Og það þarf enginn að láta sér detta það til hugar að það auðveldi að ná fjármagni til gróðurverndarmála, landgræðslu og skógræktar, að stofna eitt flibbaráðuneyti til viðbótar. Þetta eru að sjálfsögðu

grundvallaratriði í þessum málum.
    Það er svo allt annað mál, eins og hefur komið fram í málflutningi sjálfstæðismanna, að aðstæður hafa breyst á margan hátt með aukinni vélvæðingu og í tæknivæddu þjóðfélagi. Við leggjum ekki minni áherslu á en aðrir að það þurfi að mæta slíkum utanaðkomandi breytingum og við höfum að sjálfsögðu flutt það mál bæði hér og líka með þinglegum hætti hér í þinginu.
    En vegna þess hvað orðið er áliðið kvölds sé ég ekki ástæðu til að orðlengja þessa ræðu. Það var ekki hægt undir nokkrum kringumstæðum að láta þeim staðhæfingum ómótmælt sem hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir viðhafði um gróðurfarið í landinu. Og það var raunar meginástæðan fyrir því að ég kvaddi mér hljóðs við þessa umræðu. En ég geri ráð fyrir að gera því máli miklu gleggri skil síðar við 3. umr. og þá með þeim hætti að vera betur undir það búinn.