Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Metnaðarleysi var orð sem einhver hv. þm. tók sér í munn hér fyrr í kvöld og virðist vera dálítið rauður þráður í þessu máli öllu saman, bæði metnaðar- og stefnuleysi.
    En ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsrh. fyrir þau svör sem hann gaf mér, þó að ég hafi ýmislegt við þau að athuga.
    Varðandi spurninguna um það hvort bréf hans frá því í september dygði ekki lengur. Ég er alveg sammála honum um það að tólf ár voru of löng bið þegar fyrra bréfið var skrifað um það að félmrn. skyldi sinna umhverfismálunum út á við alla vega eða vera samræmingaraðili. En ég get enn ekki séð rökin fyrir því að ekki sé hægt að bíða í þær tvær vikur sem við hugsanlega þyrftum að bíða með frv. til að geta afgreitt bæði frumvörpin í einu, veitt þessu máli það brautargengi sem það verðskuldar.
    Ég vil líka koma að athugasemdum hæstv. forsrh. um Brundtland-skýrsluna. Vera má að það hafi ekki komið nógu skýrt í ljós en ég talaði einmitt um að í Brundtland-skýrslunni væru hugmyndir um að auðvitað þyrfti að samræma stjórn umhverfismála. En ég gat þess líka að eftir sem áður ættu atvinnumálaráðuneytin, þ.e. önnur fagráðuneyti, að axla sína ábyrgð og sinna sínum skyldum þannig að skilningur okkar á þessari skýrslu fer þar saman. Ég er reyndar líka sammála honum í því að auðvitað er aldrei hægt að einangra umhverfismálin við eitt ráðuneyti. Umhverfismálin snerta hvern einasta einstakling hvar sem hann er, hvort sem hann er inni í ráðuneyti eða úti í þjóðlífinu.
    Þegar ég fjallaði um þann sess sem ég taldi að umhverfisráðuneyti ætti að skipa minntist ég á fjmrn. sem oft getur sett stólinn fyrir dyrnar í ýmsum málum. Ég talaði um nauðsyn þess að umhverfisráðuneytið hefði vald til þess einmitt að grípa inn í. Það var einkum tengt þeirri tillögu sem kynnt var í
hv. allshn. Nd. á fundi í morgun, sem mér sýnist vera hringavitleysa ein. Hún leiðir hvorki til einföldunar né skilvirkni miðað við það fyrirkomulag sem nú ríkir. Umhverfisráðherra er þar ætlað að taka við tillögum um friðunaraðgerðir frá Náttúruverndarráði. Síðan þarf hann að leggja leið sína í landbrn. Ef ekki næst eining um viðkomandi friðunaraðgerðir við landbrh., þá verða ráðherrar þessara tveggja ráðuneyta að fara til forsrh. og hann skal skera úr um hvor skal ráða í hverju tilviki. Þetta finnst mér undarleg niðurstaða og leiðir hvorki til einföldunar né skilvirkni né heldur tryggir að umhverfisráðuneytið hafi þau völd, þau áhrif sem það þarf að hafa til þess að geta sinnt hlutverki sínu.
    Hæstv. forsrh. sagði að Kvennalistinn hefði snúist gegn málinu. Ég gat um það oft í ræðu minni í dag að Kvennalistinn hefði frá upphafi verið sannfærður um að nauðsynlegt væri að stofna sérstakt ráðuneyti umhverfismála og það erum við enn. Við bárum fram tillögu um það, sem ég kynnti rækilega fyrr í dag, í Sþ. á síðasta ári þannig að það er ljóst að við

snúumst ekki gegn málinu sem slíku. Við erum enn sannfærðar um að þessum málum sé best komið fyrir í sérstöku ráðuneyti. Auðvitað getum við ekki annað en snúist gegn þeirri afgreiðslu sem hér er lögð til og í því nál. sem ég las upp fyrr í umræðunni í dag kom fram að vegna þess hvernig málsmeðferðin öll er og vegna þeirrar óvissu sem fram undan er, við vitum ekkert hvað hið nýja umhverfisráðuneyti á að fá af verkefnum, sjáum við okkur ekki fært að standa að afgreiðslu mála eins og hér er lagt til. Það þykir okkur miður eins og reyndar líka kemur fram í nál. okkar.
    Það hafa komið fram undarleg viðbrögð einmitt vegna þeirrar afstöðu, m.a. í máli hv. 4. þm. Reykn. Karls Steinars Guðnasonar. Ég hef það á tilfinningunni að kannski vildu ýmsir aðrir hv. þm. líka taka þessa afstöðu, enda trúi ég ekki að þeir stofni með glöðu geði ráðuneyti sem ekki hefur nein verkefni --- og það sem er aðalatriðið, stofnun þessa ráðuneytis fylgir engin stefna í umhverfismálum. Það er bráðabirgðaákvæði um að skipa skuli nefnd til að semja lög um umhverfisvernd, reyndar bar ég fram spurningu varðandi þetta atriði við hæstv. forsrh. en fékk ekki svar við henni. Ég minntist á það í dag að Jarðfræðafélag Íslands hefði gert þá athugasemd að ekki væri tryggt, fyrst þetta bráðabirgðaákvæði var sett inn, að í þeirri nefnd sitji a.m.k. tiltekið hlutfall af fólki sem hefur bæði menntun og reynslu á þessu sviði. Ég vil því endurtaka þá spurningu mína til hæstv. forsrh.
    Það voru undarlegir útúrdúrar hv. 4. þm . Reykn. þegar hann fór að tala um þingtæknileg atriði og þingtæknilegar hundakúnstir. Tel ég slíkar athugasemdir ekki svara verðar en mér finnst menn hins vegar koma upp um sig með því að ætla öðrum að vera í svokölluðu málþófi. Og í sjónvarpsþætti um daginn gat hæstv. hagstofuráðherra þess einmitt að ef hann væri í stjórnarandstöðu mundi hann líka ,,láta svona eins og menn létu`` eins og hann orðaði það í umræðunni í Nd. um þær mundir. Mér finnst ekkert annað liggja í þessum orðum heldur en einmitt það hvernig viðkomandi hv. þm. eða hæstv. ráðherra hugsa sjálfir.
    Það er auðvitað mjög mikilvægt að ræða þetta mál. Það er ekkert smámál að
stofna nýtt ráðuneyti, sérstaklega ráðuneyti sem þetta sem við ætlum mjög mikilvæg verkefni og ætti að geta hjálpað okkur að snúa af þeirri braut eyðingar á náttúruauðlindum sem hefur verið stunduð hingað til án umhugsunar. Það hefur allt of lengi viðgengist að menn héldu að þeir gætu gengið á auðlindirnar og þær væru óþrjótandi. Höfum við Íslendingar reyndar lent í hremmingum sem því fylgja og má minna á síldarævintýrið í því sambandi.
    Ég ætla aðeins að víkja að orðum hv. 4. þm. Austurl. Egils Jónssonar vegna þess að hann gerði að umræðuefni orð mín fyrr í dag. Hann áminnti mig reyndar sérstaklega um að nota tölur varlega og ég gerði það reyndar og hef prentaða fyrir framan mig setninguna sem ég sagði og ætla að lesa hana því að

þetta var ekki mitt mat heldur sagði ég nákvæmlega: ,,Talið er að gróið land hafi verið tvisvar til þrisvar sinnum meira við upphaf landnáms en nú er.`` ( EgJ: Af hverju gat ræðumaður ekki um heimildarmann fyrir þessu? Hver er það sem telur þetta?) Það eru náttúrlega margar heimildir eins og við vitum. Þetta kemur fram víða í bókum. ( EgJ: Er ræðumaður bara með eina heimild?) Já, t.d. Náttúruverndarráð og ég sagði reyndar að gróðureyðing og fok væru stærsta umhverfisvandamálið og það eru menn sammála um. Það eru ýmsar ástæður fyrir þessu vandamáli. Það er búseta mannsins hér og það eru líka loftslagsbreytingar eins og hv. þm. réttilega kom inn á. En það er auðvitað líka spurning hvernig keðjan er, hvað kemur fyrst og hvað á eftir. Hv. þm. efaðist um að slíkt yrði stöðvað með stofnun umhverfisráðuneytis og minntist á mikinn árangur á undanförnum árum. (Gripið fram í.) Það gerði ég reyndar líka fyrr í dag og nefndi þá miklu reynslu sem menn hefðu öðlast á þessu sviði. Samt sem áður stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd, hvort sem okkur líkar eður ei, að við náum ekki að græða upp jafnmikið land á ári hverju eins og það sem glatast og það er af ýmsum ástæðum.
    Ég minntist á það fyrr í dag að hér færi um mikill fjöldi ferðamanna, e.t.v. miklu meiri en landið þolir. Það hefur líka færst mjög í vöxt að farið er í fjölmennar hestaferðir um viðkvæm svæði og ég gerði ferðamálin að séstöku umræðuefni í dag. Það er því alls ekki grasbítum einum um að kenna að svo hefur farið sem er og auðvitað ljóst að breytingarnar eru af ýmsum ástæðum. ( EgJ: Við ræðum betur um þetta mál.) Já, við eigum sennilega eftir að ræða þetta mál allt saman í heild sinni miklu betur sýnist mér og ég vil benda á það og ég gat þess líka fyrr í dag að með því að stofna umhverfisráðuneyti, þá hlýtur hæstv. ríkisstjórn að ætla sér eitthvað meira. Við verðum að vona að hugur fylgi máli þó að því miður hafi komið í ljós eins og ég sagði bæði metnaðar- og stefnuleysi. En við vitum líka að þessi hæstv. ríkisstjórn situr ekki til eilífðarnóns. Með því að stofna sérstakt ráðuneyti umhverfismála hlýtur um leið að vera ætlunin að gera það átak sem þörf er á, bæði í mengunarmálum, í uppgræðslu lands og öðrum þáttum sem við þurfum að sinna til þess að geta áfram talað um að við lifum hér í tiltölulega hreinu og óspilltu landi.
    Ég vil að lokum aðeins ítreka það sem margoft hefur komið fram að það er einungis vegna þess hvernig staðið er að þessu máli sem kvennalistakonur geta ekki hugsað sér að greiða atkvæði með þessu frv. Það kom fram í nefndarálitinu að við munum ekki taka þátt í afgreiðslu þess. Frv. felur það eitt í sér að bæta orðinu ,,umhverfisráðuneyti`` inn í upptalningu ráðuneyta, en ekkert samkomulag liggur fyrir um starfsemi þess. Það eina sem við vitum um ráðuneytið er að það hefur nú þegar til umráða ráðherrastól, mengunarvarða bifreið með skíðabogum og ef til vill hatt, hvort sem hann kemst á hæstv. ráðherra þegar þar að kemur eða ekki. Allir málaflokkarnir sem ættu að heyra undir ráðuneyti umhverfismála heyra eftir sem áður undir sín gömlu ráðuneyti þar til

samkomulag hefur náðst um annað.
    Ég minntist á það í dag að nauðsynlegt væri að auka fræðslu um umhverfismál og hæstv. forsrh. tók undir það í sínu máli. Mér fannst hins vegar ekki koma skýrt fram hvernig þessi fræðsla verður. Að hverjum beinist hún? Verður hún í skólunum eða meðal almennings? Ég minnti reyndar á tillögu Kvennalistans um umhverfisfræðslu í skólum og meðal almennings en sú tillaga er væntanlega í menntmrn. núna. Hvort sem henni hefur verið hrint í framkvæmd eða ekki, er þá ætlunin að sú tillaga fari yfir í hið nýja umhverfisráðuneyti? Mun umhverfisráðuneyti taka upp samstarf við t.d. skóla og samtök af ýmsu tagi eða er hér einungis verið að tala um einhvers konar upplýsingabæklinga eða því um líkt?
    Það vakti athygli mína í kvöld þegar smáhlé gafst frá umræðum að fundi á Selfossi um atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar var frestað vegna anna á Alþingi. Hæstv. ráðherra Hagstofu hefur hafið á ný þá fundaferð sem hann hóf fyrir jólin í leit að atvinnustefnu. Hann hefur vissulega verið í önnum hér í kvöld við að hlusta á umræður í þinginu um málefni þessa nýja ráðuneytis, en ekki veit ég hvort hann hefur endilega heyrt hvert einasta orð sem hér hefur verið sagt. Ég vona þó að svo sé vegna þess að hér hafa farið fram mjög gagnlegar umræður þar sem flestum hliðum þessa máls hefur verið velt upp og hv. þm. hafa skipst á skoðunum og reynt að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Hins vegar
hefur hæstv. ráðherra ekki verið í önnum við að taka þátt í umræðunni um þetta mikilvæga mál. Það sem eftir stendur við stofnun umhverfisráðuneytis er sú staðreynd að það fyrirfinnst engin stefna í umhverfismálum.