Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Eins og ítrekað hefur komið fram í þessari umræðu, þá fylgir engin stefna því frv. sem hér liggur fyrir til afgreiðslu. Hins vegar standa vonir til þess að svo gæti orðið á næstu vikum, að það ráðuneyti sem hér er lagt til að stofnað verði fái verkefni og hlutverk og að mótuð verði heildstæð stefna í umhverfismálum og yfirstjórn þeirra samræmd. Ég vil í ljósi þess lýsa stuðningi mínum við þá tillögu sem hér var mælt fyrir af hv. 6. þm. Reykn. rétt í þessu, um að gildistöku laganna verði frestað til 1. júní 1990 vegna þess að þá verður væntanlega búið að skilgreina þau verkefni sem eiga að fara inn í hið nýja ráðuneyti og tími hefur gefist til að móta ákveðna stefnu og t.d. að taka þá ágætu skýrslu sem Brundtland-skýrslan er fyrir í hæstv. ríkisstjórn. Ég verð að segja að ég undraðist það áðan að um hana hefði ekki verið rætt formlega á fundi ríkisstjórnarinnar. Ég vildi aðeins koma hér og lýsa stuðningi mínum við þessa brtt. með tilliti til aðstæðna.
    Ég vil láta það koma enn og aftur fram að við kvennalistakonur teljum málið brýnt. Umhverfisráðuneytið þarf að hafa verðug verkefni og skipa ákveðinn sess. Það er engin reisn yfir að afgreiða þetta mikilvæga mál með þeim hætti sem hér er stefnt að. Ég held að allir gætu farið sáttari héðan af þessum fundi ef ákvörðun yrði tekin um að fresta gildistökunni því við vitum að þess er ekki langt að bíða að við höfum frv. um verkefni ráðuneytisins hér í okkar höndum. Það hefur komið margoft fram í umræðunni að alla vega minni hl. í hv. allshn. þessarar deildar er reiðubúinn til þess að afgreiða það mál nokkuð fljótt og vel þar sem við höfum þegar fjallað um meginefni þess.