Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson (um þingsköp):
    Herra forseti. Ég leyfi mér að vekja á því athygli að hæstv. hagstofuráðherra hefur ekki tekið til máls í þessari umræðu þrátt fyrir áskoranir, m.a. frá mér, um að gera það. Ég beindi til hans beinni spurningu um það hvað gæti glatast við að bíða í tvær, þrjár eða fjórar vikur eftir því að hægt væri að afgreiða heilsteypta löggjöf um þetta málefni en ekki bara nafnið á hinu nýja ráðuneyti sem á að byggja í kringum hæstv. ráðherra. Ég inni hann eftir svörum um það. Við höfum hér mörg lýst því hvað gæti áunnist með því að bíða þennan tíma, kannski þrjár vikur, kannski fjórar. Alla vega afgreiða málið fyrir þinglok. Það er ekki lítið sem gæti unnist ef næðist samkomulag um það og heilbrigð skipan væri komin á. Ég treysti því að hann svari því nú hvað gæti glatast við það að bíða eftir því að Norðurlandaráðsfundum ljúki og við fáum starfsfrið á eftir í tvær, þrjár vikur. Ég skora á ráðherra að koma hér og skýra sín sjónarmið.