Stjórnarráð Íslands
Miðvikudaginn 21. febrúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Vegna orða hæstv. forsrh. hér áðan vil ég taka þetta fram: Hæstv. forsrh. sagði að fyrir jól hefði sinn skilningur verið sá að þetta mál yrði afgreitt á fyrstu eða annarri viku þessa þinghalds og einnig fylgifrv. þessa frv., eða svo skildi ég hæstv. forsrh. Í þessum ummælum hæstv. forsrh. felst sá skilningur hans að það hafi verið með öllu óþarft að þingið athugaði þetta mál, að þingið færi ofan í nauðsyn þess að umhverfisráðuneyti yrði stofnað og að þingið velti fyrir sér þeim verkefnum sem slíku ráðuneyti yrðu falin.
    Nú er það svo að þær tafir sem hafa orðið í allshn. Nd. eru ekki tafir sem hafa orðið vegna stjórnarandstöðunnar. Þvert á móti hafa tafirnar orðið vegna þess að fulltrúar stjórnarflokkanna í allshn. hafa ekki komið sér saman um hvernig þeir vilji hafa og orða fylgifrv. Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar eru ekki búnir að átta sig á því hvaða verkefni er eðlilegt að fela hinu nýja ráðuneyti.
    Ég hygg, herra forseti, að hæstv. forsrh. hafi mismælt sig. Hann hafi sennilega ætlað að segja að hann hafi talið víst að frumvörpin yrðu afgreidd í 10. eða 20. viku eftir að þing kemur saman því að ekki dettur mér í hug að hæstv. forsrh., eins og hann talaði um umhverfisráðuneytið og störf þess, hafi ætlast til þess að þingið gerði ekkert annað en rétta upp hendurnar með eða móti frv. og fylgifrv. þess. Ég hef heyrt þennan málflutning áður. Mér finnst hann ekki hæstv. forsrh. til sóma vegna þess að ég veit að hæstv. forsrh. getur ekki hafa ætlast til þess að þingið afgreiddi þessi frumvörp bæði á einni eða tveim vikum. En líka má velta fyrir sér hvernig stóð á því að það dróst að vísa þessu máli til nefndar. Skýringin var sú að ríkisstjórnin var í algeru uppnámi fyrir áramót. Ég hygg að þess séu engin dæmi að meiri háttar
frumvörp hafi borist þinginu jafnseint og á jólaföstu og það kemur m.a. fram í því að ríkisstjórnin er enn ekki búin að koma sér saman um það t.d. hvernig standa skuli að orkuskattinum sem hefur í för með sér 30% hækkun á raforkuverði til venjulegs heimilishalds. Það er nú um það.
    Ég vil líka vekja athygli á öðru sem sýnir hversu illa þetta mál er undirbúið og óskammfeilni, vil ég segja, ríkisstjórnarinnar með þessum málatilbúnaði. Hér er ákvæði til bráðabirgða, herra forseti, svohljóðandi:
    ,,Eftir gildistöku laga þessara skipar umhverfisráðherra nefnd til þess að semja frv. til laga um umhverfisvernd.`` Ef hugur hefði fylgt máli, þá hefði forsrh. skipað slíka nefnd sama daginn og hann myndaði ríkisstjórnina eins og hann hafði fulla heimild til. En þetta ákvæði bendir til þess að málið sé með öllu óhugsað, með öllu óundirbúið, kastað til þess höndunum og í rauninni næsta tilviljanakennt hvað að síðustu verði falið þessu ráðuneyti. Og næsta tilviljanakennt hvernig að þeirri löggjöf verði staðið sem hér er verið að tala um. Af sama toga eru þær

upplýsingar hæstv. forsrh. að engin reglugerð sem tengist þessu máli hefur enn verið samin né sú auglýsing sem óhjákvæmilegt er að gefa út í tengslum við þessa breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands.
    Hæstv. forsrh. segir stundum þegar hann er að reyna að koma illa við sjálfstæðismenn, eða koma sér í mjúkinn við þá, ég veit ekki hvort heldur er, að hann vilji gjarnan tileinka sér vinnubrögð gamals formanns Sjálfstfl., nú látins, Bjarna Benediktssonar. Skal ég fúslega verða við þeirri áskorun hæstv. forsrh. að taka við 3. umr. málsins upp athugun á því hvernig staðið var að breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands á árinu 1969 þannig að við getum þá í sameiningu borið saman hvernig málin stóðu þann dag sem lögin um Stjórnarráð Íslands tóku gildi. Við getum þá athuguð hvort þáv. hæstv. forsrh. hafi haft sama háttinn á og nú að vera ekki búinn að velta því fyrir sér hvað ætti að vera í einstökum ráðuneytum eða hvort þáv. hæstv. forsrh. hafi e.t.v. verið búinn að átta sig á því til fullnustu hvaða verkefni yrðu í hinum einstöku ráðuneytum. Það væri fróðlegt að bera þetta saman og alveg sjálfsagt, herra forseti, að verða við tilmælum hæstv. forsrh. um að við tökum nú til umræðu þau vinnubrögð sem þá voru, athugum þær skoðanir sem Bjarni Benediktsson hafði á stjórnsýslunni og vinnubrögðum í því sambandi. Við getum kannski líka athugað hvort einhvers staðar sé að finna í hans ritum vísbendingu um það hvernig hann taldi að Alþingi ætti að vinna.
    Ég get auðvitað ekki, fremur en hæstv. forsrh., fullyrt hvernig hann hefði brugðist við því ef einhver maður hefði orðað það við hann að hann setti inn í löggjöfina nafn á einu ráðuneyti til viðbótar sem ekki hefði nein verkefni en reynt yrði að athuga það síðar hvað það ráðuneyti ætti að gera. Ég hygg að þeir séu ekki margir sem þekkja stjórnmálasöguna sem láta sér detta í hug að hann hefði verið fús til þess.
    En að síðustu aðeins þetta, herra forseti. Mér fannst nauðsynlegt að leiðrétta hæstv. forsrh. þegar hann sagði hér áðan að hann hafi ætlað þinginu eina eða tvær vikur til þess að fjalla um þessi mál bæði. Það getur ekki verið rétt. Sá hinn mikli verkstjóri hefur enn ekki getað stillt saman kraftana, komið stjórn á samstarfsmenn sína og fengið þá til þess að koma sér niður á
það hvernig verkefnaskiptingin eigi að vera í ríkisstjórninni. Og svona til þess að bæta aðeins við nokkrum ljóðlínum:

Vinsemd þeim, sem vinsemd eiga,
virðing þeim, sem ber.
Ég hneigi mig fyrir hatti þínum,
höndina rétti þér.

En alltaf stendur það einhvern veginn
óljóst fyrir mér,
hvort þú varst sniðin fyrir föt
eða fötin handa þér.