Fyrirspyrjandi (Þorsteinn Pálsson):
    Frú forseti. Í umræðum hér á Alþingi 29. nóv. sl. lýsti hæstv. fjmrh. og formaður Alþb. ályktun sem sá flokkur hafði gert vegna könnunarviðræðna EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið. Í þeirri ályktun kom fram að þingflokkur Alþb. ítrekaði þá stefnu varðandi samninga EFTA og Evrópubandalagsins að fullur fyrirvari, eins og þar segir, verði hafður um þátttöku og fjárfestingu útlendinga í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Hér er hafður af hálfu eins stjórnarflokkanna fullur fyrirvari. Enn fremur segir í ályktuninni að Alþb. hafi almennan fyrirvara við málið í heild sinni.
    Nú hagar þannig til að þeir samningar sem á döfinni eru byggjast á því að EFTA-þjóðirnar, þjóðir Fríverslunarsamtakanna, gerist aðilar að löggjöf sem Evrópubandalagsþjóðirnar hafa þegar sett um innri markað og frelsi á nokkrum meginsviðum efnahags- og atvinnumála. Þess vegna er nauðsynlegt að fá nánari skýringar á því hvað ,,fullur fyrirvari`` við nokkra meginþætti þessara samninga hefur að þýða, hvað er í raun og veru verið að segja.
    Í þessari ályktun og í ræðu hæstv. fjmrh. á Alþingi var gerð sú krafa til hæstv. utanrrh. að hann kynnti ráðherrum, bæði Fríverslunarsamtakanna og Evrópubandalagsins, þessa sérstöku ályktun Alþb. og þá fyrirvara sem þar eru gerðir. Þess vegna hef ég leyft mér að bera hér fram fsp. til hæstv. utanrrh. í fyrsta lagi um það hvenær hann kynnti öðrum ráðherrum EFTA og ráðherrum Evrópubandalagsríkjanna þessa sérstöku samþykkt Alþb. gagnvart viðræðum Fríverslunarsamtakanna og Evrópubandalagsins. Hvenær fór sú kynning fram? Og í öðru lagi er nauðsynlegt að upplýsa með hvaða hætti hæstv. utanrrh. lýsti fyrirvörum Alþb. Hversu víðtækir eru þessir fyrirvarar? Samkvæmt orðanna hljóðan mætti gera ráð fyrir því að Alþb. hefði algjöran fyrirvara og væri þar með í raun og veru í andstöðu við málið. En auðvitað er unnt að túlka þetta með mildari hætti.
    Ég óska eftir því að hæstv. utanrrh. geri hér nánari grein fyrir því hvernig hann túlkaði þessa fyrirvara, hversu víðtækir þeir eru, í hvaða skilningi samstarfsráðherrar okkar innan Fríverslunarsamtakanna og viðsemjendur innan Evrópubandalagsins eru um þessa sérstöðu Alþb. sem hæstv. utanrrh. var falið að kynna. Auðvitað hefði ég helst kosið að utanrrh. hefði með öllu látið vera að kynna þessa ályktun því hún er nú tæpast útflutningsvara en ég geri ráð fyrir því að hann hafi orðið við þeirri kröfu.