Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Sem svar við þessari fsp. hv. 1. þm. Suðurl. vil ég skýra frá því að ég álít ekki að það sé í mínum verkahring að kynna ályktanir einstakra stjórnmálaflokka og afstöðu þeirra í þessu máli. Það gera þeir sjálfir og á það jafnt við um ályktanir Alþb. sem og annarra flokka. Mitt hlutverk var annað, það var að kynna samþykkt og bókun ríkisstjórnar Íslands um málið sem ég kom að sjálfsögðu á framfæri við samráðherra mína, utanríkisviðskiptaráðherra EFTA-landanna. Bókun ríkisstjórnar Íslands kynnti ég sem afstöðu þeirrar ríkisstjórnar, studda þeim þingmeirihluta sem á bak við hana er.