Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að blanda mér inn í málefni ráðherra í ríkisstjórn Íslands eða þeirra samskipti, hvorki varðandi þetta mál eða önnur, að öðru leyti en því sem snýr að mér sem þingmanni og aðila að þingflokki Alþb. Fyrir liggur samþykkt þingflokks Alþb. frá 29. nóv. 1989 þar sem m.a. kemur fram að Alþb. hefur almennan fyrirvara við viðræður EFTA og Evrópubandalagsins á þessu stigi, eins og sagt er, og telur samkvæmt samþykkt þingflokksins 29. nóv. að áður en til þátttöku í beinum og formlegum samningaviðræðum komi verði málið tekið til sérstakrar umfjöllunar og afgreiðslu í ríkisstjórn og stjórnarflokkum. Þetta held ég að varpi skýru ljósi á stöðu málsins að því er aðild Alþb. snertir og það varðar auðvitað stöðu málsins í ríkisstjórn Íslands um leið.