Forkönnun á hagkvæmni varaflugvallar
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Það vill svo til að fsp. sama efnis hefur verið svarað nýlega á Alþingi, rækilega og ítarlega, en það fór fram í fyrirspurnatíma í sameinuðu þingi þann 8. febr. sl.
    Í svörum mínum þá, sem ég vísa til, kom fram og ég vil einungis ítreka það að því er varðar þetta mál:
    Í fyrsta lagi. Það hefur engum dyrum verið lokað í þessu máli. Málið er enn í undirbúningi og það er enn í skoðun og athugun þótt ákvörðun hafi enn ekki verið tekin. Fjárveiting er fyrir hendi í fjárhagsáætlun Mannvirkjasjóðsins fyrir yfirstandandi ár til að standa undir kostnaði við forkönnun ef á þarf að halda.
    Svar við því hvers vegna ekki hefur verið veitt formlegt leyfi enn? Það liggur fyrir og það svar gaf ég við umræðurnar þann 8. febr. og ég vitna til þeirra. Svarið er þetta: Nú fer fram endurskoðun á mannvirkjaáætlun og langtímaáætlun Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins sem getur, að þeirra eigin sögn en ekki minni eins og þá sagði, breytt forsendum forkönnunarinnar. Forkönnunin snýst um þrennt, henni er þrískipt, fer fram í þremur áföngum. Hún snýst um frumkönnun, sem er nánast öflun og úrvinnsla upplýsinga sem fyrir liggja, hún er könnun sem lýtur að staðarvali og hún er verkfræðileg forkönnun. Það ræðst af því hvernig þetta mannvirki er hugsað hvernig á þeirri könnun verður haldið. Það er því ekki af neinum undandrætti út af fyrir sig sem ákvörðun hefur ekki verið tekin, heldur styðst það við eðlileg rök. Ég lít með öðrum orðum svo á að ég bíði enn haldgóðra upplýsinga um það hvort þessi áform eru óbreytt áður en ákvörðun verður tekin.
    Það hefur svo oft komið fram við þessar umræður að ákvörðun um heimild til forkönnunar og heimild til þess að hefja framkvæmdina sjálfa eru algerlega aðskildar ákvarðanir. Með öðrum orðum, það er unnt að heimila forkönnunina út
af fyrir sig þótt ákvörðun um það að hefja byggingarframkvæmdir verði tekin síðar. Þetta eru tvær aðskildar ákvarðanir. Þess vegna er það alveg ljóst að heimild til forkönnunar er ekki brot á núv. stjórnarsáttmála sem kveður einungis á um það að hefja ekki nýjar meiri háttar hernaðarframkvæmdir á starfstíma þessarar ríkisstjórnar.
    Það hefur legið fyrir frá upphafi að áformin um það að hefja byggingu mannvirkisins snúast um það að upphaf framkvæmda verði á árinu 1994.
    Virðulegi forseti. Ég vísa enn og aftur í þær umræður að öðru leyti sem fram fóru 8. febr., þar sem ég tel að hafi verið gefnar viðhlítandi upplýsingar í þessu máli. ( Forseti: Vegna orða hæstv. ráðherra vill forseti upplýsa að hinn 8. febr. var hér umræða í sameinuðu þingi um till. til þál. um forkönnun Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins á alþjóðlegum varaflugvelli á Íslandi.)