Forkönnun á hagkvæmni varaflugvallar
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Ég hafði skýrt hæstv. forseta frá því eftir að umræður höfðu orðið um þáltill. um forkönnun Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins að full rök væru fyrir því að draga til baka þá fsp. sem hér er til umræðu nema vegna þess að hæstv. samgrh. var ekki við þá umræðu. Nú hefur hæstv. samgrh. hlýtt á svar hæstv. utanrrh. við fsp. minni og ég skil þögn hans svo að hann sé sammála þeirri túlkun hæstv. utanrrh. að það brjóti ekki í bága við stjórnarsáttmála að hæstv. utanrrh. leyfi þá forkönnun sem hér hefur verið lýst og við vitum af fyrri ummælum utanrrh. og raunar þeim sem hann lét sér um munn fara hér áðan að hæstv. utanrrh. er staðráðinn í því að leyfa forkönnunina.
    Ég vil, hæstv. forseti, lýsa yfir ánægju minni yfir því að hæstv. samgrh. skuli ekki ætla að setja fótinn fyrir þetta mál og sé sáttur við það að forræði málsins sé í höndum utanrrh. og hann þurfi ekki með einum eða neinum hætti að bera það undir ríkisstjórnina.