Forkönnun á hagkvæmni varaflugvallar
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að upplýsa hv. þm. Karl Steinar Guðnason um það að það var fyrst í viðræðum sem ég átti við Bagget aðmírál í ágústmánuði 1988 að bandarísk yfirvöld féllust á þau skilyrði sem íslensk stjórnvöld hafa sett fyrir því að slíkur flugvöllur yrði byggður hér, m.a. um borgaralega stjórn á friðartímum, þannig að það var fyrst eftir þann tíma sem efni voru til þess að hefjast handa af hálfu íslenskra stjórnvalda. Það er rétt að hv. þm. viti þetta.
    Það liggur hins vegar alveg í augum uppi að þau rök sem hæstv. utanrrh. færir núna fyrir því að fresta ákvörðun mæla þvert á móti í þá veru að ástæða væri til að flýta þessari ákvörðun. Það sem gerst hefur í málinu er það að fyrir tæpu ári lýsti Þjóðviljinn yfir því að hæstv. utanrrh. hefði verið beygður í málinu. Nú hefur Alþb. gert formlega samþykkt um það að það muni láta þetta mál varða stjórnarslitum. Hæstv. forsrh. hefur hins vegar lýst því yfir að þetta sé ekki ríkisstjórnarmál heldur alfarið á valdi utanrrh. Niðurstaða málsins er því sú að því miður hefur hæstv. utanrrh. beygt sig fyrir þessari lélegu hótun þeirra alþýðubandalagsmanna og stjórnarliðið er hér allt hvað upp á móti öðru í þessu máli eins og ýmsum öðrum.