Forkönnun á hagkvæmni varaflugvallar
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Það er nú aðeins til þess að leiðrétta misskilning sem kann að hafa sprottið upp þegar vitnað er til þess að ekki hafi borist formleg beiðni um þetta mál. Erindi hafa borist um það að fá að framkvæma slíka forkönnun frá tveimur aðilum, annars vegar frá Atlantshafsbandalaginu fyrir hönd Mannvirkjasjóðs, --- þau hafa verið kynnt hér að hluta til og vísa ég þá til bréfs aðalframkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins --- og hins vegar af hálfu flotayfirvalda bandaríska flotans í Norfolk.
    Erindin bárust fyrst árið 1985 þegar ráðherrar Sjálfstfl. gegndu bæði embættum utanrrh. og samgrh. Það var því á þeirra valdi að svara þessum erindum. Niðurstaðan var, eins og kunnugt er, að það var samgrh. sem var falið forræði í málinu í tíð þeirrar ríkisstjórnar og það var veitt 1 millj. kr. fjárveiting til málsins og sett af stað könnun á alls óskyldu máli, þ.e. spurningunni um lagfæringar á núgildandi flugvöllum.
    Í annan stað, það eru alls óskyld mál hugmyndin um að reisa hér fullkominn varaflugvöll eða lagfæringar á þeim flugvöllum sem hér hafa verið á dagskrá, alls óskyld mál og ber ekki að ræða í sömu andránni.
    Í þriðja lagi vegna ummæla hæstv. samgrh. vil ég taka skýrt fram: Ákvæði í stjórnarsáttmála er um það að í tíð þessarar ríkisstjórnar skuli ekki efna til nýrra meiri háttar hernaðarframkvæmda. Það er með öðrum orðum alveg ljóst og hafið yfir allan vafa að þótt forkönnun væri heimiluð væri það ekki brot á þessum stjórnarsáttmála. Að vísu fara fram framkvæmdir í þágu varnarliðsins með eðlilegum hætti samkvæmt langtímaáætlun þrátt fyrir þetta ákvæði. En það liggur alveg ljóst fyrir að þetta eru tvær aðskildar ákvarðanir, um forkönnun og
framkvæmd, að framkvæmdir munu ekki hefjast í tíð þessarar ríkisstjórnar. Og loks er það alveg skýrt að málið er á forræði utanrrh. þannig að þar fer ekkert á milli mála. Þá vænti ég að málið sé skýrt.
    Dylgjum hv. 1. þm. Suðurl. um eitthvert neitunarvald Alþb. í þessu máli vísa ég gersamlega á bug.