Forkönnun á hagkvæmni varaflugvallar
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Þær umræður sem hér hafa átt sér stað eru nú býsna fróðlegar og sýna það að ríkisstjórnin er sér sjálfri sundurþykk og rífst um hvert einasta mál. Ekki er samstaða í henni og er því furða að hún skuli enn þá tolla í stólunum og má vera að það sé eingöngu þess vegna sem hún tollir þar. En það kemur skýrt fram að hæstv. ráðherra utanríkismála þorir ekki að fara út í forkönnun af því að Alþb. hefur sett honum stólinn fyrir dyrnar og hótar stjórnarslitum. Svo einfalt er málið. Og það liggur líka ljóst fyrir að það að vefja mál sitt inn í einhverjar umbúðir um einhverjar lagfæringar á flugvöllum hér innan lands eins og hæstv. samgrh. hefur gert er náttúrlega alveg út í loftið. Því hljótum við að krefjast þess að það verði þegar í stað hafin forkönnun á því hvað slíkt mannvirki muni kosta og hvernig hagkvæmast er að gera það.