Forkönnun á hagkvæmni varaflugvallar
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Þetta eru merkilegar umræður sem fara hér fram. Í öðru orðinu er talað um að það þurfi endilega að útbúa varaflugvelli til þess að flug hér um sé öruggt. Þegar fram kemur að það er verið að vinna að því og það er að leysast, þá auðvitað koma þessir hernaðarsérfræðingar upp um sig að það er ekki það sem verið er að hugsa um. Það er verið að hugsa um að byggja herstöð eins og við höfum bent á áður.
    Ég er alveg sammála hæstv. samgrh. að því leyti til sem hann ræddi þetta mál. Hins vegar hryggir mig afstaða þm. Stefáns Guðmundssonar, sem a.m.k. mætti draga af orðum hans, að hann væri að berjast fyrir herstöð. Þannig kom mál hans fram og ég trúi því ekki og ég vildi að hann leiðrétti sitt mál, ég hygg að það séu fleiri sem hafa skilið hann á þann veg.
    Það er undarlegt að heyra í hæstv. utanrrh. Hann segir hér á Alþingi að það hafi verið að hluta til sem hafi verið skýrt frá þeirri umsókn sem barst frá Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins. Hann sagði að að hluta til hafi verið skýrt frá því. Það er eitthvað sem Alþingi Íslendinga má ekki sjá eða ráðherrann veit ekki hvað hann segir hér í þessum ræðustól.