Forkönnun á hagkvæmni varaflugvallar
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Ragnhildur Helgadóttir:
    Frú forseti. Hæstv. utanrrh. hefur hér enn á ný sagt að það sé sitt hvað, forkönnun og framkvæmd. Rétt er það, en enginn lætur fara fram forkönnun á hugsanlegri framkvæmd án þess að hann hafi a.m.k. áhuga á að gera slíka framkvæmd. Þess vegna eru þetta auðvitað ekki tvö aðskilin mál heldur eins og alþýðubandalagsmenn álíta --- þetta er sama málið. Og þess vegna er það deginum ljósara að það sem nú er að gerast er að hæstv. utanrrh. frestar þessu máli langtímum saman til þess að halda saman þessari ríkisstjórn og stefnir þar með stórkostlegu öryggismáli og hagsmunamáli í samgöngum Íslendinga í hættu til þess að geta haldið saman þessari sundurþykku ríkisstjórn. Þetta sýnist mér vera algerlega augljóst.