Forkönnun á hagkvæmni varaflugvallar
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Það er mjög nauðsynlegt að leiðrétta þann misskilning að þetta tvennt, að efna til forkönnunar og að taka ákvörðun um framkvæmd, séu ekki tvær aðskildar ákvarðanir. Það fer eftir niðurstöðum forkönnunarinnar hvort ákvörðun verður tekin. Ef forsendur þessarar forkönnunar eru að breytast eins og gefið er til kynna, þá kann það að breyta upphaflegum áformum um framkvæmdina. Þetta eru tvö aðskilin mál. Ákvörðun um framkvæmdina ræðst af niðurstöðum forkönnunarinnar. Þetta verður að vera alveg skýrt.
    Í annan stað vek ég athygli á því að þeir hv. þm. Sjálfstfl. sem hér tala segja það hið alvarlegasta mál að ekki skuli vera búið að taka ákvörðun í þessu máli. Það er hið alvarlegasta mál að utanrrh. hefur dregið þetta mál, að taka ákvörðun, í meira en ár. Þetta eru þeir hinir sömu menn sem höfðu ábyrgð á þessu máli árið 1985, árið 1986 og árið 1987 og tóku enga ákvörðun í málinu. Þeim ferst.