Ríkisstyrkir til sjávarútvegs í Noregi
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Þorsteinn Pálsson):
    Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Kjarni málsins er hins vegar sá að sú aðlögun, sem hæstv. ráðherra réttilega minnir hér á að er hluti af þessu samkomulagi, hlýtur samkvæmt eðli máls að vera í því fólgin að á þeim tíma dragi þjóðirnar úr styrkjum. Nú liggur hins vegar fyrir að Norðmenn, vegna sérstakra aðstæðna, hafa talið sig þurfa að auka styrkinn á þessum aðlögunartíma. Það er því raunverulega spurningin hvort þetta samrýmist þessum markmiðum og hvort sú staðreynd að ein þjóða Fríverslunarsamtakanna er að auka styrki á sama tíma og við erum að undirbúa og væntanlega hefja formlegar samningaviðræður við Evrópubandalagið, þar sem gerð er krafa um fríverslun á grundvelli þessa samkomulags, hvort þessar aðstæður veiki ekki samningsstöðu Fríverslunarsamtakanna á þeim grundvelli sem lagður hefur verið í þessu efni. Ég minni á að það hefur verið lögð sérstök áhersla á það að Íslendingar gættu sérstaklega að hagsmunum sínum varðandi hindrunarlausan útflutning á sjávarafurðum en af hálfu utanrrh. hefur verið lögð megináhersla á að þessi samþykkt EFTA-ríkjanna ætti að tryggja íslenska hagsmuni. Kjarni málsins er auðvitað sá hvort hæstv. ráðherra telur ekki að þessar ákvarðanir Norðmanna um að auka styrkina á aðlögunartímanum í stað þess að draga úr þeim veiki samningsstöðu EFTA-ríkjanna á þessum grundvelli.