Ríkisstyrkir til sjávarútvegs í Noregi
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég tel mjög eðlilegt að um þetta efni sé spurt sem hv. 1. þm. Suðurl. hefur haft frumkvæði að. Það liggur fyrir að norska Stórþingið hefur samþykkt hækkun á beinum styrkjum til sjávarútvegs í Noregi úr um 900 millj. nkr. í 1125 millj. nkr. á þessu ári. Stefnir sem sagt í þveröfuga átt við það sem kveðið var á um varðandi aðlögun að samkomulaginu í Osló. Aðlögun hlýtur í reynd að þýða að dregið er úr í áföngum. Hitt er svo annað mál að spurningin um fríverslun með fisk er kannski flóknara mál en látið hefur verið að liggja miðað við íslenska hagsmuni. Fullkomin fríverslun með fisk felur það auðvitað í sér að ekki er hægt að reisa skorður við útflutningi á afla frá Íslandi og það getur haft veruleg áhrif á okkar stöðu í sambandi við fiskvinnslu í landinu.