Ráðstafanir til að lækka verðbólgu og vexti
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að það hefur dregist of lengi að svara spurningunni. Stafar það m.a. af því að miklir hlutir hafa verið að gerast sem varða þessa fsp., ekki síst fjórða liðinn.
    Ég er hér með svar frá Seðlabanka Íslands sem ég ætla að reyna að hlaupa nokkuð hratt yfir, með leyfi forseta, næ líklega ekki að lesa það allt. Þar segir: ,,Ríkisstjórnin hefur þegar stuðlað að lækkun vaxta, m.a. með því að ganga á undan með vaxtalækkun spariskírteina á sl. ári. Í upphafi þessa árs voru vextir spariskírteina 6,8--7% en eru nú á bilinu 6--6,2%.`` Hér segir svo jafnframt: ,,Algengir vextir af vísitölubundnum lánum banka og sparisjóða lækkuðu einnig á sl. ári.`` Þetta kemur miklu nánar fram í töflu sem hér er rakin og ætla ég að fara aðeins yfir hana á eftir. Hér segir einnig: ,,Raunvextir óverðtryggðra lána banka og sparisjóða lækkuðu einnig á sl. ári. T.d. voru þeir 4% af almennu skuldabréfi að meðaltali á árinu samanborið við 12% árið 1988 þegar fært er til sama grundvallar. Nafnvextir hafa einnig verið að lækka undanfarnar vikur. T.d. hafa vextir ríkisvíxla verið lækkaðir úr 27% fyrir skömmu í 16--18%.``
    Í þessari skýrslu sem gefin var út 24. nóv. er þetta allt rakið miklu ítarlegar, allt frá árinu 1986, en til að stytta mál mitt fer ég yfir það mjög fljótt. Hér er þess getið að á árunum fram til 1989 er lögð til grundvallar lánskjaravísitalan eins og hún var, en á árinu 1989 er það framfærsluvísitala. Þannig verður samanburðurinn raunhæfari því að framfærsluvísitalan vó 2 / 3 af heild lánskjaravísitölunnar áður. Hér kemur fram að raunvextir allt árið 1986 voru 5,2%, allt árið 1987 7,7%, allt árið 1988 9,2% og þrjá fyrstu ársfjórðunga 1989 4,7%, fært til sama grundvallar, eins og ég skýrði hér í umræðum nýlega en menn virtust ekki skilja.
    Svo vil ég nefna kannski það allra mikilvægasta í þessu máli að með lögum er nú ábyrgðin á vöxtum færð mjög yfir til bankaráðanna sjálfra, ekki bankastjóranna. Með því eru að sjálfsögðu fengnir þar pólitískir fulltrúar sem gæta þess að vextir lækki, eins og ég veit t.d. að hv. fyrirspyrjandi beitti sér fyrir þegar hann var í bankaráðinu. Um auglýsingu Verðbréfamarkaðar Íslandsbanka hef ég satt að segja ekki mjög miklar upplýsingar því að umrædd auglýsing fannst ekki. En önnur auglýsing sem kom síðar fannst og það er óheimilt að auglýsa vexti svona fram í tímann. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá bankaeftirlitinu gerði bankaeftirlitið þegar athugasemd við Verðbréfamarkað Íslandsbanka og var tjáð að um hrein mistök hefði verið að ræða. Það er sem sagt ekki heimild til að auglýsa vexti þannig. Nú hefur komið fram að það er ekki mikið framboð af svona skuldabréfum, það var m.a. auglýst eftir þeim, og telur Seðlabankinn að ýmislegt bendi til þess að þessir vextir muni fara lækkandi.
    Þá er enn spurt: ,,Mun ríkisstjórnin gera ráðstafanir til að hindra að innlánsvextir verði á uppboði eins og þeir voru á árinu 1987?`` Það má kannski taka saman

3. og 4. spurningu. Nú hafa nafnvextir lækkað mjög verulega, eða um 7%, um leið og kjarasamningarnir voru gerðir. Og þeir aðilar sem ég hef rætt við um þessi mál telja allir að það séu ekki nokkur líkindi til þess að uppboð geti hafist á innlánsvöxtum því að með þessum móti er mjög verið að draga úr vaxtamun bankanna sem ég veit að hv. fyrirspyrjandi þekkir manna best. Og það væri fullkomið ábyrgðarleysi hjá bönkunum að fara að bjóða upp innlánsvexti. Íslandsbanki gerði það í einu tilfelli þegar hann hafði viðskiptin við Fríhöfnina svonefndu á Keflavíkurflugvelli og það er flestum mönnum óskiljanlegt hvernig bankinn hefur treyst sér til þess. En ég læt nægja að vísa til þess sem fróðustu menn um þá hluti hafa sagt, að það eru engar líkur til annars en að vextir almennt lækki eftir þá samninga sem hafa verið gerðir.
    Að lokum: Eitt af því allra jákvæðasta í þessu máli er það að á síðasta ári náðist loks aftur jafnvægi í innlánum og útlánum. Það náðist líka að fjármagna skuldahalla ríkissjóðs í langtum ríkari mæli innan lands en áður hefur verið. Og það náðist þrátt fyrir það að vextir af ríkistryggðum skuldabréfum voru lækkaðir eins og ég sagði áðan. Um allt það sem ég hef orðið að rekja hér í mjög hröðu máli mætti vitanlega hafa langa ræðu. Í fyrsta lagi er staðfest að vextir hafa lækkað mjög mikið á síðasta ári, að hluta til vegna þess að lánskjaravísitölugrundvellinum var breytt, og það bendir allt til þess að það jafnvægi sem nú er að nást á lánamarkaðnum verði til þess að vextir lækki enn.