Ráðstafanir til að lækka verðbólgu og vexti
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Hæstv. forseti. Ég tel ekki svaravert það sem fram kom hjá síðasta ræðumanni. Ég tók það skýrt fram að með kjarasamningunum voru nafnvextir lækkaðir, það er engin deila um það. Og ber að þakka að það náðist. Lánskjaravísitala er of há núna. Það kom mjög greinilega fram í fjölmiðlum, m.a. af hálfu aðila vinnumarkaðarins. Það stafar af því að uppmælingarmenn hafa tekið sér í raun viðbót sem nemur 0,8% af byggingarvísitölu. Menn geta kennt ríkisstjórninni um það ef þeir vilja. En ég held að það detti nú engum manni í hug.
    Einu vildi ég bæta við þá málefnalegu umræðu sem hér er á milli okkar hv. fyrirspyrjanda og það er að vitanlega er það mikilvægast að útlánsvextir lækki. Og þeir hafa lækkað og við gerðum það hvorugir. Ef einhver banki treystir sér til þess að greiða sparifjáreigendum hærra þrátt fyrir lækkun útlánsvaxta, þá get ég ómögulega lagst gegn því og ég veit að hv. fyrirspyrjandi getur það varla heldur. Hættan er í því fólgin, sem hann kemur inn á, að það skapist kapphlaup um innlánsfé sem muni síðan hækka útlánsvextina. En það eru margar ástæður til að ætla að hagræðingin í bankakerfinu muni leiða til minni vaxtamunar og kannski gerir hún bönkunum kleift að greiða eitthvað hærra á innlánsfé þótt þeir lækki útlánsvexti. Það er sú þróun sem við viljum vitanlega sjá.