Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Á þinginu 1986--1987 var samþykkt þál. um samfélagsþjónustu sem úrræði í viðurlagakerfinu. Málið var flutt af Kristínu S. Kvaran og fleiri þm. Sjálfstfl. og vil ég lesa ályktunina eins og hún var samþykkt, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að kanna hvort endurgjaldslaus vinnuþjónusta í þágu samfélagsins geti við ákveðnar aðstæður komið í stað afplánunar dóma í fangelsi. Verði niðurstaða nefndarinnar jákvæð semji hún frumvarp um nauðsynlegar lagabreytingar sem lagt verði fyrir Alþingi.``
    Samfélagsþjónusta felst í því að hinn dæmdi innir af hendi ýmis störf í þágu samfélagsins ákveðinn tíma í viku hverri, oftast utan vinnu- eða skólatíma. Störfin eru unnin undir stjórn og eftirliti og eru oft í tengslum við líknar- eða góðgerðarfélög eða hjá bæjar- og sveitarfélagi. Reglan hjá nágrannaþjóðum okkar er sú að lágmarksdómstími sem leiðir til samfélagsþjónustu eru 3 mánuðir en hámark 12 mánuðir og afbrotin sem höfð eru til hliðsjónar eða viðmiðunar eru einkum auðgunarbrot, bílþjófnaðir, innbrot, skemmdir á eignum o.s.frv. Ölvunarbrot og grófari brot koma yfirleitt ekki til greina fyrir dóma af þessu tagi.
    Samfélagsþjónusta var tekin upp í Englandi 1973, í Danmörku 1982 og í Noregi 1984. Það sem einkum hefur þótt mæla með þessu úrræði er sá langi tími sem meðferð mála tekur oft í dómskerfinu. Það getur leitt til þess að brotamenn hafa í millitíðinni komist á réttan kjöl og komið undir sig fótunum þegar loks kemur að afplánun og slík röskun getur haft afdrifaríkar og mjög óæskilegar afleiðingar fyrir lífsferil hins dæmda.
    Annar mikilvægur þáttur málsins er sá að fangelsi og þá ekki síst þau fangelsi sem boðið er upp á hér á landi geta varla talist mannbætandi. Má nærri fullyrða að líklegra sé að margir fangar og þá sérstaklega ungar manneskjur bíði frekara tjón á sálu sinni og leiðist út í óæskilegan félagsskap og vítahring afbrota eftir vistun í þeim fangelsum sem hér eru rekin. Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. dómsmrh. um störf nefndar um samfélagsþjónustu:
,,1. Hvað líður störfum nefndar sem skipuð var samkvæmt þingsályktun, sem samþykkt var á Alþingi 5. mars 1987, um samfélagsþjónustu sem úrræði í viðurlagakerfinu?
    2. Hvenær mun hún ljúka störfum og skila niðurstöðum?``