Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Það háttar þannig til að ég hafði sjálf skrifað fyrirspurn sama efnis til að leggja fram í þinginu þegar ég sá að hún var komin hér á dagskrá, en ég var á sínum tíma einn af flm. þessarar þáltill. og lagði jafnframt fram fyrirspurn í nóvember 1987 um hvort búið væri að skipa þessa nefnd. Þá kom fram að hún hafði ekki verið skipuð þrátt fyrir að þál. var samþykkt í mars, en við þá fyrirspurn mína var drifið í því að skipa þessa nefnd. Þess vegna vil ég þakka hv. 6. þm. Reykv. fyrir að vekja athygli á þessu máli og leggja fram þessa fyrirspurn því að ég er sammála henni. Þetta er einn af þeim þáttum sem ætti að geta verið mjög góður liður í því að bæta aðstöðu og hjálpa þeim ógæfumönnum sem lenda í afbrotum. Þess vegna vil ég hvetja hæstv. dómsmrh. til þess að það verði eitthvað gert í þessu máli en að niðurstöður nefndarinnar verði ekki settar aðeins niður í skúffu.