Félagslegar aðgerðir fyrir fanga
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Enn geri ég fyrirspurn um fangelsismál til hæstv. dómsmrh.
    Ný fangelsislöggjöf tók gildi 1. jan. 1989. Þá voru fangelsismál færð undir nýja stofnun, Fangelsismálastofnun ríkisins. Hlutverk hennar er að sjá um fullnustu refsidóma og að annast félagslega þjónustu við fanga og hún hefur einnig með höndum daglega yfirstjórn á rekstri fangelsa. Þetta er ung stofnun og hún tók við verkefnum dómsmrn. annars vegar og skilorðseftirliti ríkisins hins vegar. Undir stofnunina heyra fimm fangelsi, þ.e. Hegningarhúsið við Skólavörðustíg, Síðumúlafangelsið, Litla-Hraun, Kvíabryggja og Kópavogsfangelsi sem er nýjast. Alls er rúm fyrir um 105 afplánunarfanga og svo 13--15 gæslufanga í Síðumúlafangelsinu.
    Það er skemmst frá því að segja, að aðbúnaður og aðstaða í fangelsum er víða mjög slæm en trúlega verst í Hegningarhúsinu gamla við Skólavörðustíginn sem reyndar er orðið 115 ára gamalt. Þar er rými fyrir 23 fanga en 30 fangar voru skráðir þar um tíma á sl. ári. Þrengslin eru mikil, jafnvel tveir til þrír fangar saman í litlum fangaklefum og verða þeir að matast í herbergjum sínum eða á mjóum gangi þar sem engin önnur aðstaða býðst. Þar er heldur engin aðstaða til tómstundaiðkana eða vinnu og er iðjuleysið mesta kvörtunarefni fanganna og undirrót óánægju um alla mögulega hluti eins og fram kom í bréfi frá fanga þaðan. Síðumúlafangelsið var annaðhvort byggt sem bílageymsla eða bílaþvottastöð fyrir lögregluna í Reykjavík og er ekki hentugt sem fangelsi. Kvartanir hafa borist frá föngum um aðbúnað og húsakost á Litla-Hrauni.
    Í stuttu máli sagt, húsakostur og aðbúnaður fanga hér á landi er í mesta ólestri. Mjög alvarlegur þáttur þessa vanda bitnar svo á þeim afbrotamönnum sem ekki eru sakhæfir vegna geðveiki og eiga því ekki að vistast í fangelsi. Reyndar skortir lagaheimild til þess að vista þá þar og geðdeildir geta ekki í mörgum tilvikum eða vilja ekki taka við þeim. Engin gæslustofnun eða staður er til hér á landi til að sinna öryggisgæslu slíkra einstaklinga. Mikil þörf er fyrir aukna félagslega og sálfræðilega þjónustu við fanga almennt og verður sú þörf enn brýnni þegar öðrum aðbúnaði er svo ábótavant.
    Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. dómsmrh. fjölmargra og kannski nokkuð ólíkra spurninga undir sömu fyrirspurninni en til þess að taka ekki upp tíma Alþingis með aðskildum fyrirspurnum féllst ég á að setja allar saman á eitt blað þó að ég viti að það verði erfitt fyrir hæstv. dómsmrh. að þurfa að svara þeim öllum í senn. En ég vænti góðra svara frá honum.