Félagslegar aðgerðir fyrir fanga
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn en hún er nú það viðamikil og efnismikil að það er ekki hægt að ræða hana efnislega í stuttri athugasemd. Ég vil þó taka undir þau sjónarmið sem fram komu hjá fyrirspyrjanda og einnig þakka ráðherra hans svör.
    Ég hef sjálfur skoðað öll þau fangelsi sem hér hafa verið til umræðu nema það sem er í Kópavogi og get staðfest það að aðbúnaður allur er í raun í molum og að mörgu leyti ekki mönnum sæmandi. Þess vegna vildi ég nú fá að spyrja hæstv. ráðherra hvað líður því máli og hvar það er statt, þ.e. sá grunnur sem tekinn var uppi á Höfða, að mig minnir, fyrir nýtt og fullkomið fangelsi fyrir allnokkrum árum og gerðar voru teikningar að. Ég vildi gjarnan inna eftir því hvort endanlega hefur verið fallið frá þessu, hvort jafnvel er búið að selja grunninn, hvar það mál er statt í dag.