Félagslegar aðgerðir fyrir fanga
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans, en eins og kom fram bæði hjá mér og honum hefur þessi fyrirspurn verið gerð svo viðamikil að það er mjög erfitt að fjalla um hana, einmitt vegna þess að það er svo margt að segja um hvern lið fyrirspurnarinnar.
    Varðandi svör hans almennt vil ég í raun leggja áherslu á að þau gefa til kynna alvarlegan brest í fangelsismálum okkar Íslendinga og e.t.v. varpa þau líka ljósi á það að heildarstefnu vantar í raun í fangelsismálum hér á landi. Og mig langar að vitna í grein eftir Harald Johannessen sem er forstjóri Fangelsismálastofnunar og skrifaði í Morgunblaðið 19. des. sl. Þar segir hann:
    ,,Þrátt fyrir að frv. til fjárlaga ársins 1990 geri ráð fyrir um 260 millj. kr. framlagi til alls fangelsiskerfisins má halda því fram að heildarstefnu í þessum málaflokki skorti. Áætlun um brýnar úrbætur og æskilega skipan fangelsismála þarf að ljúka. Þá þarf jafnframt að skoða aðrar leiðir en fangelsisrefsingu einvörðungu.`` Þar vitnar hann einmitt í þá samfélagsþjónustu sem við ræddum í fyrri fyrirspurn. Og hann segir áfram: ,,Á Íslandi er til fiskveiðistefna, landbúnaðarstefna, utanríkisstefna og stefnur í flestum öðrum málaflokkum sem stjórnmálaflokkarnir á Alþingi hafa mótað. Ég get hins vegar fullyrt að enginn flokkur á Alþingi hefur stefnu í fangelsismálum``, og líti nú hver í sinn barm í þessum sal.
    Varðandi svör hæstv. ráðherra vil ég vekja athygli á því að fangelsið í Kópavogi er fyrst og fremst ætlað fyrir konur og það er ekki síst vegna þess að það var ekkert fangelsi til fyrir konur. Þess vegna vantaði úrbætur í þeim efnum sárlega. Sem betur fer eru ekki margar konur sem bíða afplánunar eða hafa þörf fyrir að fara í fangelsi en þær sem það gera hafa ekki getað fengið vistun hingað til nema með vandkvæðum.
    Svo vil ég líka vekja athygli á því að Kópavogsfangelsið er sniðið með öðrum hætti en hin fangelsin. Það er opið fangelsi, og þess vegna geta ekki allir fangar dvalist þar jafnvel þó að eitthvað verði fjölgað föngum.
    Varðandi fangahús í Reykjavík, þá hef ég sjálf farið í heimsókn til þess að kynna mér málin, bæði í Hegningarhúsið á Skólavörðustíg og eins í Síðumúlafangelsið, og séð með eigin augum að þar þarf verulega að taka til hendinni. Þar eru hreint og beint óviðunandi vistarverur fyrir menn og þá sérstaklega í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Það er ekki mönnum bjóðandi hvað svo sem þeir hafa af sér brotið, og verður að finna lausn á þeim vanda.
    Ég vil líka vitna aftur í þessa sömu grein þar sem forstjóri Fangelsismálastofnunar segir um það hús: ,,Vistarverurnar eru slíkar að varla er sæmandi þjóð sem telur sig til vestrænna velferðarþjóðfélaga.`` Hann segir reyndar einnig að það sé óumdeilt að ráða verði bót á húsakosti Hegningarhússins og Síðumúlafangelsisins og væntanlega leysist þau mál

ekki fyrr en með tilkomu annarra húsakynna. Ég legg mikla áherslu á að formaður fjvn. og hæstv. dómsmrh. taki þessi mál fyrir og sinni þeim því að það verður ekki lengur við unað að fangelsi séu þeir lélegu geymslustaðir sem þau eru nú. Þau verða að vera staðir sem eru eitthvað í átt að betrunarhúsum þannig að menn fái meðferð og komi út styrkari en þeir fóru inn en ekki eins og nú líklegri til þess að halda áfram á afbrotabrautinni.