Persónuafsláttur látins maka
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir fsp. til fjmrh. um nýtingu persónuafsláttar látins maka sem hv. varamaður minn, Kolbrún Jónsdóttir, flutti hér fyrr á þinginu en var þá ekki unnt að svara.
    Það er um þetta mál að segja að í lögum um tekjuskatt er gert ráð fyrir að hægt sé að veita persónuafslátt fyrir látinn maka, um 80%, sem geta þá orðið um 200 þús. kr. á einu ári. En það sitja ekki allir við sama borð hér að lútandi og fer það eftir því hvenær á almanaksárinu andlát ber að. Það er því nauðsynlegt að reglur séu samræmdar á þessu sviði og réttlátt að aftirlifandi maki sé eins settur á hvaða tíma ársins sem andlát hefur borið að höndum því að auðvitað hlýtur það að vera í anda löggjafarinnar. Fyrirspurnin er svohljóðandi:
    ,,Telur fjármálaráðherra eðlilegt að heimild, sem eftirlifandi maki hefur skv. 64. gr. tekjuskatts- og eignarskattslaga til að nýta persónuafslátt látins maka, nái eingöngu til þess almanaksárs er maki lést eða telur ráðherra koma til greina að þegar maki fellur frá sé eftirlifandi maka heimilt að nýta sér persónuafslátt hins látna í tólf mánuði eftir andlátið óháð því hvenær almanaksársins það bar að?``