Norræna sjóréttarstofnunin
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á þessu máli hér. Ég kynntist þeirri umræðu nokkuð þau ár sem ég var formaður menningarmálanefndar Norðurlandaráðs hvernig spara mætti í rekstri og leggja niður stofnanir. Um það voru gerðar ýmsar tillögur og ég minnist þess sérstaklega að það kom fram tillaga um að leggja niður stofnun sem heitir Norræni sumarháskólinn. Nefndarmenn menningarmálanefndarinnar fóru og heimsóttu þá stofnun og komu til baka þeirrar skoðunar að ef eitthvað væri, þá ætti sú stofnun að fá enn meiri peninga til umráða en hún áður hefði haft.
    Staðreyndin er sú að fæstar þær stofnanir sem eru á norrænu menningarfjárlögunum, og þær eru margar, fengju annars staðar fé ef þær fengju ekki norræna peninga. Þess vegna hefur reyndin orðið sú að það hefur verið ákaflega erfitt að leggja til atlögu við það að skera niður með þeim hætti að leggja niður stofnanir. Ég held að það væri fráleitt og mikill skaði ef sú stofnun sem hér um ræðir --- hinar þrjár þekki ég öllu minna --- yrði lögð niður vegna þess að ég veit af samtölum við íslenska fræðimenn sem þar hafa dvalið að hún nýtur mikils álits og er beinlínis talin Mekka þessarar fræðigreinar við lagastofnanir og skóla í Evrópu. Hún hefur þar að auki ekki fjallað bara um sjórétt heldur líka í mjög vaxandi mæli um orkurétt og sérhæft sig á því sviði og ég held að það væri mikill skaði í norrænu samstarfi ef sú ákvörðun yrði tekin að leggja þessa stofnun niður. Ég held að það yrði beinlínis röng ákvörðun.