Norræna sjóréttarstofnunin
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Ragnhildur Helgadóttir):
    Frú forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem tóku til máls. Við eigum það öll sammerkt að hafa verið í menningarmálanefnd Norðurlandaráðs og við höfum því haft nokkuð af þessu máli að segja á ýmsum tímum.
    Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans en mér þóttu þau ekki nægilega afdráttarlaus. Mér þótti gott að heyra að hæstv. ráðherra er persónulega þeirrar skoðunar að okkur beri að halda í starfsemi þeirrar stofnunar sem við erum að ræða um. Mér hefði þótt betra að hann vissi til þess að starfsbróðir hans, hæstv. menntmrh., væri ákveðinn í því að berjast gegn þeirri hugmynd að Norræna sjóréttarstofnunin yrði lögð niður.
    Það skyti skökku við ef fulltrúar Íslands, sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi og byggja framtíðarvonir sínar á auðlindum sjávar og hafsbotns, gerðu sér ekki ljósa grein fyrir því hvers virði það er að eiga góða sjóréttarfræðinga og aðferðin til þess er að eiga aðgang að þessari stofnun. Það gildir ekki aðeins um okkur, heldur um hvern þann í veröldinni sem hugsar sér að kynna sér sjórétt. Hann sækir þekkingu sína til Norrænu sjóréttarstofnunarinnar. Þess vegna tel ég það miklu skipta að Íslendingar standi allir sem einn vörð um þessa stofnun, þeir sem á annað borð munu sitja fundi á þeim vettvangi þar sem þetta mál kemur til afgreiðslu.