Norræna þjóðfræðistofnunin
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Ragnhildur Helgadóttir):
    Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Ég verð að láta þá skoðun í ljós að mér þykir með ólíkindum að ekki skuli liggja fyrir afstaða menntmrh. á Íslandi til tillagna um að leggja niður stofnun um sameiginlega norræna rannsóknastofnun í þjóðfræðum, þjóðháttum og þjóðmenningu þar sem einmitt Íslendingar eiga mikið erindi. Það erindi sem við höfum fyrst og fremst átt í hið norræna menningarsamstarf er að leggja fram það séríslenska og þær íslensku hefðir sem við höfum sumpart varðveitt öðrum norrænum þjóðum betur.
    Nú veit ég að við megum ekki telja okkur trú um að við stöndum okkur betur í varðveislu menningararfleifða en aðrar þjóðir, en nokkuð er það að þetta er það sem einkennir okkur sérstaklega. Engum blandast hugur um það að framlag okkar til norrænnar menningar og heimsmenningarinnar er einmitt á bókmenntasviðinu, á sviði skáldskapar og okkar vel varðveitta tungumáls. Ef við viljum líka halda áfram að láta aðra sýna virðingu okkar séríslensku menningareinkennum, þá megum við ekki láta það koma fyrir að stofnanir sem þessi verði lagðar niður.
    Eitt enn, frú forseti. Ég veit að ástæðan til þess arna er sú að menn hyggjast spara með því að leggja niður það sem kallað er fastar stofnanir svo hægt sé að losa fjármagn til að kosta nýja starfsemi. Ég tel það illa farið ef sú nýja starfsemi sem verja á fjármagni til verður til þess að leggja af þær stofnanir sem fyrir löngu hafa sannað gildi sitt og við getum illa án verið.