Lögregluvarðstofa í Stykkishólmi
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Fyrir stuttu síðan svaraði hæstv. dómsmrh. fsp. frá hv. þm. Eiði Guðnasyni um húsnæðismál lögreglunnar í Stykkishólmi. Í svari ráðherra kom fram að vandi þessi yrði leystur snögglega og það var skilningur þm. Vesturl. að lögreglustöðin mundi flytjast í bráðabirgðahúsnæði á staðnum. Nokkrum dögum síðar kom frétt og viðtal í Dagblaðinu við aðila frá ráðuneytinu þar sem staðhæft er að ráðuneytið hafi tekið þá ákvörðun að lögreglustöðin yrði flutt í einingahús sem staðsett yrði einhvers staðar í bæjarfélaginu. Þessi ákvörðun kom okkur nokkuð á óvart og ekki síður það sem á eftir fylgdi, að þetta hús yrði fengið annars staðar frá en frá bæjarfélaginu sjálfu þar sem á staðnum eru tvær trésmiðjur sem báðar sinna þessum málum. Báðar eru í því að byggja einingahús. Með þetta í huga er sú fsp. lögð fram sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 595 til dómsmrh. um nýja lögregluvarðstofu í Stykkishólmi en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,1. Hvaðan kemur það 100 fermetra einingahús sem fyrirhugað er samkvæmt blaðafregnum 10. febr. sl. að reisa fyrir lögregluna í Stykkishólmi? Var leitað tilboða hjá framleiðendum einingahúsa og ef svo er, hjá hverjum og hvert þeirra var hagstæðast? Hver er áætlaður heildarkostnaður við hina nýju lögregluvarðstofu í Stykkishólmi?``
    Því má kannski bæta við í lokin að nægilegt húsnæði er til staðar, það er nægilegt húsnæði laust í Stykkishólmi og fékk ég það staðfest síðast í gær hjá bæjarstjóra Stykkishólms. Þar að auki má einnig inna eftir því hvort heimild er fyrir kaupum á slíku húsi yfir höfuð og einnig geta þess að nýrri lóð fylgja að sjálfsögðu ýmis gjöld.