Innflutningur á grænmeti og öðrum matvælum
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):
    Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir þessari fsp. er frétt sem kom í Dagblaðinu 13. febr. sl. Þar er sagt frá því að Svíar hafi stöðvað sölu á papriku frá Spáni hvað eftir annað frá því í haust. Í fréttinni kemur fram að bæði gúrkur og tómatar eru fluttir inn frá Spáni til Íslands ásamt papriku og í verslunum fáist þessar vörur nú einungis frá því landi.
    Í fréttinni kemur fram að fimm eiturtegundir, skordýraeiturtegundir hafi fundist í þessum innflutningi til Svíþjóðar. Og í fréttinni er farið nokkrum orðum um það að hér sé ekkert eftirlit með þessu. Ég man ekki betur en að fyrir tveimur árum hafi verið fjallað um þetta ástand í Ed., bæði af þeim sem hér stendur og hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur og þá hafi því verið heitið að á þessum málum yrði tekið. Ég hef svo ekki fylgst með því máli fyrr en þessi frétt barst og ég hrökk heldur betur við. Og ekki batnar það þegar maður les fréttina áfram. Þar segir sölustjóri Ágætis, Sturla Guðmundsson, að nú fari að koma grænmeti frá Hollandi, eins og það séu eitthvað mjög gleðilegar fréttir í þessu sambandi.
    Ég hafði samband við Svíþjóð, hafði aðstöðu til þess, og bað þá um að athuga þetta. Þeir segja að Holland sé versta landið í Vestur-Evrópu og í Svíþjóð sé beitt mjög ströngu eftirliti ef þeir neyðist til að flytja inn grænmeti frá Hollandi. Það er því ekki beint tilhlökkunarefni fyrir neytendur á Íslandi að það muni vera á næstu grösum innflutt grænmeti frá þessu landi sem er með þennan stimpil. Af þessari ástæðu hef ég leyft mér að koma fram með eftirfarandi fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh.:
,,1. Hvernig fer fram eftirlit með innflutningi á grænmeti og jarðávöxtum?
    2. Hvernig er eftirlit með innflutningi á matvælum yfirleitt og hafa breytingar orðið á því eftirliti á þessu kjörtímabili, og ef svo er þá hvernig?``