Innflutningur á grænmeti og öðrum matvælum
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegur forseti. Hv. þm. Stefán Valgeirsson hefur beint til mín fsp. í tveimur liðum varðandi eftirlit með innflutningi á grænmeti og öðrum matvælum. Vegna tilvitnunar hans í frétt í dagblöðum nýlega verð ég að segja það strax í upphafi að ég er ekki með svar við því sérstaklega, enda var fyrirspurnin ekki þannig orðuð heldur almennt hvernig að þessu sé staðið og miðast svar mitt við það.
    Varðandi fyrri lið fsp.: ,,Hvernig fer fram eftirlit með innflutningi á grænmeti og jarðávöxtum?`` er því að svara að Rannsóknastofnun landbúnaðarins annast eftirlit með innflutningi þessara vörutegunda með tilliti til plöntusjúkdóma. Eftirlitið byggir bæði á skoðun vörunnar og heilbrigðisvottorðum sem henni fylgja. Heilbrigðisvottorð veita ekki upplýsingar um efnainnihald, svo sem innihald varnarefna, útrýmingarefna eða annarra aðskotaefna, enda verður eftirlit með efnainnhaldi að mestu að grundvallast á efnarannsóknum sem mikilvægt er að gerðar séu hér á landi. Hollustuvernd ríkisins skal annast eftirlit með hollustu innflutts grænmetis og annarra garðávaxta, sbr. lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Stofnunin vinnur nú að því að skapa aðstöðu til efnarannsókna á þessum vörum með tilliti til innihalds, varnarefna og annarra aðskotaefna. Stefnt er að því að rannsóknir hefjist sem fyrst á þessu ári en enn hafa ekki verið settar reglur um hámarksmagn aðskotaefna í matvælum.
    Með hliðsjón af því sem að framan greinir er ljóst að viðhlítandi eftirliti með innflutningi garðávaxta hefur ekki verið komið á. Hins vegar hefur á undanförnum árum verið haft eftirlit með innflutningi tiltekinna vörutegunda vegna tilkynninga sem Hollustuvernd hafa borist um hættulegt efnainnihald. Stofnunin er aðili að samnorrænu tilkynningakerfi þannig að henni berast
tilkynningar um vörur sem ekki er heimilaður innflutningur á í nágrannalöndum okkar. Slíkar tilkynningar frá aðildarríkjum EB berast einnig til stofnunarinnar frá Danmörku. Þetta sem hér er sagt gæti hugsanlega verið forsenda þess að skoða sérstaklega þau atriði sem hv. fyrirspyrjandi nefndi í framsögu fyrir fsp. sinni varðandi fréttir úr dagblöðum um papriku og aðrar grænmetistegundir frá Spáni og jafnvel Hollandi.
    Af málefnum sem hafa verið til umfjöllunar á undanförnum árum má nefna eftirfarandi: Eftirlit með innflutningi garðávaxta frá tilteknum Austur-Evrópuríkjum eftir kjarnorkuslysið í Tsjernóbíl. Eftirlit með innflutningi garðávaxta frá Chile vegna blásýrumengunar í vínberjum. Eftirlit með innflutningi á gráfíkjum vegna aflatoxínmengunar. Eftirlit með innflutningi kínverskra sveppa vegna enterotoxínmengunar.
    Rannsóknakostnaður vegna framangreindra málefna er verulegur auk þess sem tollafgreiðsla hefur tafist þar sem rannsókn sýna hefur að verulegu leyti farið

fram erlendis og þá helst í Svíþjóð. Auk efnarannsókna hefur eftirlit að hluta verið byggt á skoðun sérstakra vottorða um efnainnihald. Rétt er að taka fram að vottorð um efnainnihald fylgja venjulega ekki innfluttum garðávöxtum heldur er eingöngu um þau að ræða þegar sérstök mál koma upp. Þá er rétt að fram komi að erfitt er að byggja eftirlit með efnainnihaldi á skoðun vottorða þar sem dreifing efna í hverri vörusendingu er ærið misjöfn og eftirlitsaðili ákvarðar ekki þá tilhögun sýnatöku. Sérstök eftirlitsverkefni eru iðulega unnin í samvinnu Hollustuverndar ríkisins, heilbrigðisfulltrúa sveitarfélaganna og tollyfirvalda. Þá er einnig höfð náin samvinna við systurstofnanir erlendis.
    Seinni liður fyrirspurnarinnar hljóðaði svo: ,,Hvernig er eftirlit með innflutningi á matvælum yfirleitt``, og ég vildi taka þennan hluta fyrirspurnarinnar sérstaklega. Þá má því svara að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna annast eftirlit með innfluttum matvælum eftir að þau eru komin í dreifingu. Ekki er mikið um gerlafræðilegt eftirlit þar sem innflutningur viðkvæmra vörutegunda er lítill. Eftirlitið byggist því að mestu á skoðun umbúðamerkinga, m.a. með tilliti til innihalds aukefna. Í þeim tilvikum þar sem vörur eru rannsakaðar með tilliti til efnainnihalds hefur rannsóknastofa Hollustuverndar milligöngu um efnarannsóknir. Stofnunin veitir heilbrigðisfulltrúum einnig ráðgjöf um efnainnihald og umbúðamerkingar. Í samræmi við bráðabirgðaákvæði laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, hóf Hollustuvernd ríkisins sérhæft eftirlit með innfluttum matvælum sl. haust. Eftirlit stofnunarinnar er enn í mótun en mun að mestu byggjast á skoðun vörutegunda í tolli og vörugeymslum innflytjenda. Í þessu eftirliti verður megináhersla lögð á ákveðin eftirlitsverkefni sem geta beinst að afmörkuðum þáttum, svo sem tilteknum umbúðamerkingum eða efnasamböndum í matvælum.
    Fyrsta eftirlitsverkefni stofnunarinnar er nú lokið og er unnið að gagnavinnslu. Verkefni þetta fólst í skoðun umbúðamerkinga og innihalds aukefna í innfluttum frystivörum. Næsta eftirlitsverkefni stofnunarinnar verður skoðun innflutts krydds með tilliti til gerlafræðilegra þátta. Verkefni
þessi geta verið unnin að öllu leyti af stofnuninni eða í samvinnu við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og tollyfirvöld. (Forseti hringir.)
    Virðulegi forseti. Ég á því miður nokkuð eftir af svarinu enn þá við þessari fsp. Hún er það ítarleg og ég held að svo mikilvægt sé að koma þessum upplýsingum á framfæri að ég bið virðulegan forseta um leyfi til þess að halda örlítið áfram þó að það brjóti að einhverju leyti þröng tímamörk.
    Samvinna tollyfirvalda og Hollustuverndar ríkisins á þessu sviði hefur aukist verulega á undanförnum árum. Nú framkvæma starfsmenn stofnunarinnar vöruskoðanir að beiðni starfsmanna í tolli. Í flestum tilvikum er um að ræða skoðun matvæla sem liggja undir skemmdum vegna langrar geymslu í vöruskálum. Einnig hafa starfsmenn í tolli samband við stofnunina

ef þeir telja ástæðu til vöruskoðunar af öðrum ástæðum. Hollustuvernd ríkisins hefur á undanförnum tveimur árum skoðað innflutningsvörur frá nokkrum innflutningsfyrirtækjum með tilliti til umbúðamerkinga og aukefnainnihalds. Jafnframt hefur stofnunin haft milligöngu um sams konar skoðun hjá öðrum innflytjendum sem framkvæmd hefur verið af sjálfstætt starfandi matvælafræðingum. Þá hefur starfsfólk fjölda innflutningsfyrirtækja framkvæmt sambærilega vöruskoðun með tilliti til gildandi reglna. Þessar vöruskoðanir hafa m.a. verið framkvæmdar í góðri samvinnu við Félag ísl. stórkaupmanna. Eftirlitshlutverk stofnunarinnar hefur því einnig byggst á leiðbeiningum og ráðgjafarverkefnum sem hafa skilað miklum árangri. Sum heilbrigðiseftirlitssvæði hafa einnig náð verulegum árangri á þennan hátt.
    Seinni liður síðari fsp. hljóðar svo: ,,hafa breytingar orðið á eftirliti á þessu kjörtímabili, og ef svo er þá hvernig?`` Mig langar einnig, virðulegur forseti, að fá að fara yfir það með nokkrum orðum.
    Haustið 1988 voru í fyrsta skipti sett ákvæði í lög um sérhæft innflutningseftirlit með matvælum. Hollustuvernd ríkisins var þá falið að annast þetta eftirlit með gildistöku laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Samkvæmt bráðabirgðaákvæðum laganna átti innflutningseftirlit að hefjast einu ári eftir gildistöku laganna eða haustið 1989. Þá var einnig í bráðabirgðaákvæði laganna fjallað um rannsóknaraðstöðu Hollustuverndar vegna eftirlitsins. Eins og áður hefur komið fram hefur Hollustuvernd ríkisins unnið að undirbúningi og framkvæmd eftirlitsins í samræmi við ákvæði laganna. Þá flutti hluti stofnunarinnar í nýtt húsnæði í Ármúla í desember sl. og mun hún sameinast þar í einu húsnæði. Hingað til hafa rannsóknarstofa og heilbrigðiseftirlit, sem eru þau svið sem hafa starfað við matvælaeftirlit, ekki verið í sama húsnæði. Rannsóknastofur stofnunarinnar eru eina svið stofnunarinnar sem enn hefur ekki flutt í hið nýja húsnæði en af því mun verða um næstu mánaðamót. Í nýju húsnæði er gert ráð fyrir aðstöðu til efnarannsókna en hún hefur ekki áður verið fyrir hendi. Fjármagn hefur verið veitt á fjárlögum ársins 1990 til að hefja uppbyggingu nauðsynlegrar aðstöðu innflutningseftirlitsins og einnig er gert ráð fyrir fjárveitingum til þessa verkefnis á komandi árum. Þá var heilbrigðiseftirliti Hollustuverndarinnar veitt heimild fyrir einu nýju stöðugildi og hefur stofnunin nýlega auglýst laust starf við innflutningseftirlit með matvælum. Grundvöllur að virku innflutningseftirliti með matvælum er að lög og reglur um umbúðir og merkingar, innihald og aðra meðferð matvæla hafi verið settar og að virkt samstarf sé milli eftirlitsaðila, hagsmunaaðila og annarra er eftirlitið varðar. Hollustuvernd hefur unnið að því að koma á tengslum milli þeirra aðila sem tengjast framkvæmd innflutningseftirlitsins. Þá tóku á árinu 1988 gildi nýjar reglur um umbúðamerkingar og innihald aukefna í matvælum. Setning þessara reglna varð kveikjan að umfangsmestu skoðun matvæla sem fram hefur farið

hér á landi. Sá árangur sem náðst hefur með tilliti til þessara þátta á undanförnum tveimur árum á mikinn þátt í að auðvelda innflutningseftirlit með matvælum.
    Nú vinnur Hollustuvernd ríkisins að gerð reglugerðardraga um mesta leyfilega magn aðskotaefna í matvælum. Reglur þessar munu m.a. fjalla um mesta leyfilega magn varnarefna í grænmeti og öðrum garðávöxtum. Þegar þessar reglur hafa verið settar og efnarannsóknaaðstöðu komið á mun Hollustuvernd hefja eftirlit með efnainnihaldi í innfluttum sem og innlendum matvælum.
    Þrátt fyrir að Hollustuvernd ríkisins hafi verið falið sérhæft eftirlit með innfluttum matvælum með setningu laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, hefur stofnunin ekki sömu heimild til aðgerða og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga þegar hætta er talin geta stafað af neyslu matvöru og/eða þegar hún uppfyllir ekki settar reglur um merkingar eða aðra þætti. Nú er til umræðu á Alþingi frv. um breytingu á áðurnefndum lögum þar sem gert er ráð fyrir að stofnunin hafi sömu heimildir og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga þegar henni er falið að annast sérhæft eftirlit. Samþykkt þessa frv. er ein af forsendum þess að innflutningseftirlit með matvælum á vegum Hollustuverndar ríkisins skili þeim árangri og verði eins skilvirkt og til er ætlast. Því miður greiddu sumir hv. þm. í Nd. atkvæði gegn framgöngu þessa máls en það var þó samþykkt og er nú til umfjöllunar í Ed. Vonandi tekst að
lögfesta það fyrir vorið. En þessi málsmeðferð í hv. Nd. er e.t.v. besta dæmið um það viðhorf sem oft kemur fram hér í hv. Alþingi, að ekki vantar kröfur um hert og aukið eftirlit og að Hollustuvernd ríkisins standi í stykkinu en þegar á að gera henni það kleift annaðhvort með styrkari lagaákvæðum eða með fjárveitingum svo að hún geti sinnt hlutverki sínu, þá virðast viðhorf og viðbrögð hv. alþm. vera önnur.
    Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á því hvað ég hef farið illilega fram úr settum tímamörkum.