Innflutningur á grænmeti og öðrum matvælum
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það kann að vera að ég hefði átt að færa þeim þarna í ráðuneytinu þessa frétt en ég óskaði eftir svari við því hvernig grænmetisinnflutningi væri háttað. Og því miður kemur í ljós, bæði í þessari frétt og í raun og veru í máli ráðherrans, því sem ég gat numið af því, að þessi mál eru ekki í lagi, bara alls ekki. Þegar þessi breyting á lögunum var gerð var gefið fyrirheit um að þessum málum yrði kippt í lag. Eitthvað virðist mér hafa þokast í þá áttina í sambandi við matvæli miðað við þá skýrslu sem hæstv. ráðherra las hér upp, en engan veginn viðhlítandi.
    Það kemur fram í þessari frétt hér að það sé ekkert virkt eftirlit með leifum skordýraeiturs í innfluttum matvælum til Íslands, ekkert. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að athuga þetta. Sturla Guðmundsson, sem er sagður vera sölustjóri Ágætis, stendur í þeirri trú að það sé allt í lagi með grænmeti frá Hollandi. Fylgjast þessir menn ekkert með sem flytja inn þessar vörur? Vita þeir ekki hvernig eftirlitið er, t.d. á Norðurlöndum og þá sérstaklega Svíþjóð? Þetta er stoppað hvað eftir annað og hann viðurkennir það, þessi Sturla, að það grænmeti sem komi frá Spáni sé mjög lélegt. Ég held að það væri ástæða til að láta rannsaka þetta grænmeti í verslunum og bjóða fólki ekki upp á svona matvæli.
    Ég er að ljúka máli mínu, virðulegi forseti. Ég ætla bara að segja eina setningu í viðbót. Það vantar líka eftirlit með þeim smygluðu matvörum sem berast til Íslands og mér er sagt að hafi aukist mikið eftir að ávinningur af smygli á bjór minnkaði. Ég held það þyrfti að skoða það mál líka og líklega er eftirlitið ekki betra með þeim innflutningi.