Innflutningur á grænmeti og öðrum matvælum
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra var ekki eingöngu að fjalla um þessa fyrirspurn sem hér liggur fyrir til umfjöllunar heldur fór hann að blanda inn í umræðuna máli sem er komið til umræðu og umfjöllunar í Ed. Máli sem að vísu snertir þetta mál að nokkru leyti en þó ekki á þann veg að ég teldi rétt að hæstv. ráðherra færi að blanda umræðu þingdeildar inn í fyrirspurnamál hér á hv. Alþingi og nota til þess tíma sem er langt umfram það sem ætlað er til að svara fyrirspurnum.
    Það mál sem hæstv. ráðherra nefndi áðan var um aukin völd Hollustuverndar til að gera ákveðna hluti, loka eða ná meira valdi yfir sinni starfsemi með því að ganga á rétt aðila. Ég vildi benda á að mér fannst þessi aðferð hæstv. ráðherra dálítið sérkennileg. Umræða um það frv. á að vera í deildum en ekki blanda því inn í umræðu eins og hér átti sér stað.