Innflutningur á grænmeti og öðrum matvælum
Fimmtudaginn 22. febrúar 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Ég skal lofa því að syndga ekki upp á náðina aftur enda var það rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að það mátti kannski frekar líkja þessu við skýrslu en svar því þetta var nokkuð langt mál og ítarlegt. Ég las það vissulega nokkuð hratt og kann að vera að ég hafi orðið mér til skammar í framsögn og talað í belg og biðu. Þá verð ég að biðja hv. þm. afsökunar á því. Þó ég telji mig nokkuð vel læsan þá er þetta ekki skemmtileg framsetning á máli og ég tek til mín og undir athugasemdir hæstv. forseta varðandi svarið.
    Varðandi það sem fram kom aftur hjá hv. fyrirspyrjanda, að málin séu ekki í lagi, þá eru þau það ekki enn þá. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögunum átti innflutningseftirlitið að vera komið í lag seinni hluta árs 1989. Ég gerði í nokkru grein fyrir hvernig á því stæði og hverjar væru ástæður þess og jafnframt að hvort tveggja stendur til bóta. Það er verið að setja reglur um aðskotaefni í matvælum þannig að menn hafi alveg skýrar reglur um það annars vegar og sú rannsóknaraðstaða sem Hollustuverndin á að fá í nýju húsnæði verður vonandi tilbúin í næsta mánuði þannig að þessir tveir þættir ættu að standa verulega til bóta.
    Og vegna máls hv. 4. þm. Vesturl. verð ég að segja við hann að ef hann hefur lesið fyrirspurnina, þá hljóðar seinni hluti seinni töluliðarins: Hafa breytingar orðið á efirliti á þessu kjörtímabili og þá hverjar? Ég verð auðvitað að gera grein fyrir því hvaða möguleika og hvaða aðstöðu Hollustuverndin hefur til þess að gegna sínu hlutverki og umræðan tengdist fyrst og fremst því, en að sjálfsögðu verður hún tekin upp aftur í Ed. eins og vera ber þegar það þingmál, sem vitnað var til, verður þar á ferðinni.